Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér sem ritari Sjálfstæðisflokksins í ritarakjöri sem fram fer á flokksráðsfundinum þann 14. september. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur áður tilkynnt um framboð í embættið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur gegnt embættinu undanfarin tæp fjögur ár en hún var tók við sem dómsmálaráðherra á föstudag og má þá ekki lengur vera ritari Sjálfstæðisflokksins. Því þarf að kjósa nýjan.
Áslaug Hulda segir í tilkynningu að hún trúi því að flokkurinn eigi mikið inni hjá kjósendum um allt land, en hann hefur verið að mælast með um og rétt yfir 20 prósent fylgi í könnunum undanfarið. „Það er hlutverk kraftmikillar forystu flokksins að virkja almennilega sem flesta flokksmenn til að uppskera sem mest.”
Áslaug Hulda er annar einstaklingurinn sem lýsir formlega yfir framboði í embættið. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, reið á vaðið á laugardag og greindi frá framboði sínu á fundi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.