Vesturverk hefur lokið störfum á Ófeigsfjarðarvegi í bili en þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, í samtali við Kjarnann.
„Við erum farin að segja þetta gott í bili,“ segir hún og bætir því að þrátt fyrir að verkið hafi verið á áætlun þá hafi það heldur sótt seint vegna bleytu og veðurs. „Það var svosem ekkert óviðbúið. Það haustar venjulega snemma þarna fyrir norðan,“ segir hún.
Birna segir að framkvæmdir muni halda áfram þegar snjóa leysir en glugginn fyrir framkvæmdir sé frekar lítill.
Fram hefur komið í fréttum að landeigendur Seljaness við Ingólfsfjörð hafi mótmælt ólögmætum framkvæmdum Vegagerðarinnar við Ófeigsfjarðarveg. Í yfirlýsingu frá Vegagerðinni kom fram að hún hefði ekki staðið fyrir framkvæmdum á veginum en hún hefði hins vegar framselt veghald vegarins til Vesturverks.
Fyrirtækið hefði fengið heimild til að standa fyrir virkjanaframkvæmdum og væru endurbætur á veginum nauðsynlegur hluti þeirra framkvæmda.