Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að allt tal um að taka RÚV af auglýsingamarkaði án þess að tryggja þeim tekjur í staðinn sé í raun tal um að skera starfsemina umfangasmikið niður þar sem auglýsingar standi undir einum þriðja af tekjum RÚV. Hann vísar þar til ummæla Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um að hún stefni á leggja fyrir ríkisstjórn tillögu um að taka RÚV af auglýsingamarkaði.
Vill hækka útvarpsgjald til að bæta upp tapið
Fréttablaðið greinir frá því í dag að Lilja stefni á að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði en að þær fyrirætlanir hafi ekki verið kynntar ríkisstjórninni með formlegum hætti. „Það kemur að því. Ég ligg núna undir feldi og er að skoða hvernig þetta sé best gert. Ég held að umræða um málið sé mikilvæg og að þetta sé best gert í skrefum,“ segir Lilja um hvenær hún muni kynna fyrirætlanir sínir fyrir ríkisstjórn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir það koma vel til greina að taka RÚV af auglýsingamarkaði í samtali við Fréttablaðið. Hún vill leggja til að það verði skoðað sérstaklega hvaða áhrif það myndi hafa á íslenskan auglýsingamarkað. Hvort að þeir rúmir tveir milljarðar sem Ríkisútvarpið hafi í tekjur af auglýsingasölu muni skiptast yfir hina innlendur miðlana eða fara annað.
Auk þess segist Katrín vilja að RÚV væri bætt auglýsingatapið með því að hækka útvarpsgjaldið en tekur fram að henni hugnist ekki að hafa almannafjölmiðill í fjárlögum.
Kurteist að ræða fyrst við þingmenn
Kolbeinn Proppé tjáði sig um fyrirætlanir Lilju í Facebook-færslu í morgun en hann segir að auglýsingar standa undir einum þriðja af tekjum RÚV og að allt tal um að hætta þeim án þess að tryggja tekjur í staðinn sé því í raun tal um að skera starfsemina umfangsmikið niður.
„Ekkert er að finna í stjórnarsáttmála um þessi mál og spyrja má með atkvæðum hverra ætlunin sé að ná því fram? Það er sjálfsagt að ræða stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, en slík umræða verður að hefjast á því hvernig tekjur þess verða tryggðar, ekki er ég til umræðu um niðurskurð eða að setja RÚV á fjárlög,“ segir Kolbeinn.
Hann segir jafnframt að það sé sjálfsögð kurteisi að ræða fyrst við samstarfsmenn áður en þessar fyrirætlanir séu boðaðar opinberlega þar sem atkvæði þingmanna séu jú það sem á endanum ráði.
Auglýsingar standa undir einum þriðja af tekjum RÚV. Alt tal um að hætta þeim án þess að tryggja tekjur í staðinn er því...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Monday, September 9, 2019