Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leggur til að felld verði úr lögum sú krafa að framkvæmdastjórar og meirihluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum þurfi að vera búsettir í aðildarríkjum EES-samningsins, EFTA eða í Færeyjum.
Drög að frumvarpi um málið hefur verið birt í samráðsgáttinni. Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum ESA um að skilyrði um búsetu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í íslenskum fyrirtækjum sé ekki í samræmi við EES-samninginn.
Ef ekkert er aðhafst þá er von á frekari aðgerðum af hálfu ESA
Í núgildandi lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er gerð krafa um að framkvæmdastjórar og meirihluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum skulu vera búsettir hér á landi, óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila.
Búsetuskilyrði laganna gera þó undantekingu fyrir ríkisborgara Færeyja, þeirra ríkja sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða þeirra ríkja sem eru aðilar EFTA. Hins vegar gera lögin kröfu um að viðkomandi ríkisborgarar séu búsettir í fyrrnefndum ríkjum ef þeir vilja vera stjórnendur í íslenskum fyrirtækjum.
Tilefni frumvarpsins eru athugasemdir ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, við fyrrgreint búsetuskilyrði í íslenskum lögum en stofnunin vakti fyrst athugasemdir við skilyrðið í janúar 2014. Samkvæmt EESsamningum er ekki hægt að setja höft á rétt ríkisborgara á EES-svæðinu til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars ríkis á svæðinu. Staðfesturétturinn felur meðal annars í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki.
Nú þegar hefur ESA sent íslenska ríkinu formlegar athugasemdir með bréfi dags. 4. nóvember 2015. Næsta aðgerð ESA verður í formi rökstutts álits. Í frumvarpsdrögunum segir að ef ekkert verður aðhafst í kjölfar þess getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.
Ef frumvarp Þórdísar nær fram að ganga þýðir það að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar íslenskra fyrirtækja mega búa hvar sem er í heiminum, svo framarlega sem þeir eru ríkisborgarar í Færeyjum, aðildarríkjum Evrópska efnahagsvæðisins eða EFTA.