Hlutdeild nýbygginga í kaupsamningum það sem af er ári nemur 11 prósentum og hefur lækkað nokkuð frá því í fyrra. Þetta er fyrsta lækkunin í hlutfalli nýbygginga síðan árið 2010. Á síðustu tveimur árum hefur samkeppni á markaði nýbygginga aukist en merki þess má sjá í lengri meðalsölutíma nýrra íbúða ásamt auknu hlutfalli þeirra sem seljast undir ásettu verði.
Þetta kemur fram í nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Hlutdeild nýbygginga breyst mikið
Á síðustu 13 árum hefur hlutdeild nýbygginga í kaupsamningum tekið miklum breytingum. Kaup og sala á nýbyggingum, sem eru í mesta lagi tveggja ára gamlar, minnkaði ört í kjölfar efnahagshrunsins árin 2008 og 2009, eftir að hafa fjölgað nokkuð umfram annars konar fasteignaviðskipti í góðærinu á undan.
Á árunum 2010 til 2018 jókst hlutfall nýbygginga hins vegar aftur og fór úr þremur prósentum í 15 prósent, samhliða aukinni íbúðauppbyggingu. Það sem af er ári hefur hlutfallið þó lækkað frá því í fyrra, en það er fyrsta lækkunin milli ára síðan í efnahagshruninu.
Meðalaldur íbúða 36 ár
Í skýrslunni er þróun nýlegra íbúða sem hlutfall af kaupsamningum, íbúðir sem eru yngri en tíu ára, einnig skoðuð en hún er töluvert ólík þróun nýbygginga. Hlutfall nýlegra íbúða hefur lækkað nokkuð stöðugt á hverju ári frá 2007 og hefur nú nær helmingist úr 32 prósent niður í 17 prósent ef marka má kaupsamninga það sem af er ári.
Skýrsluhöfundar benda því á að íbúðauppbygging síðustu ára virðist ekki hafa náð að sporna gegn öldrun íbúða, en meðalaldur þeirra í kaupsamningum hefur farið stöðugt hækkandi á síðustu tólf árum. Meðalaldurinn hefur hækkað úr 28 árum í 36 ár frá árinu 2007.
Verðmunur nýbyggina og annara íbúða kominn niður í 9 prósent
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að samhliða auknum fjölda nýbygginga hefur verðmunur þeirra og annarra íbúða minnkað úr 30 prósentum niður í 9 prósent á árunum 2014 til 2018. Þessi þróun gefur til kynna að seljendur nýrra íbúða hafi þurft að láta undan þrýstingi frá kaupendum og gefa afslátt af íbúðum sínum í auknum mæli til þess að geta selt þær.
Hlutfall nýrra íbúða sem seljast undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu hefur farið úr 22 prósentum í júlí 2017 í 52 prósent síðastliðinn júlí. Til samanburðar hefur samsvarandi hlutfall gamalla íbúða haldist nokkuð stöðugt í 80 prósent síðustu fimm árin, ef frá er talin tímabundin lækkun árið 2017 sem gekk skjótt til baka.
Á síðustu tveimur árum hefur meðalsölutími nýrra íbúða einnig aukist á höfuðborgarsvæðinu. Meðalsölutíminn hefur farið úr 129 dögum í júlí 2017 upp í 214 daga í júlí síðastliðnum. Á sama tíma hefur meðalsölutími annarra íbúða haldist nokkurn veginn stöðugur í 70–90 dögum.
Samkvæmt Íbúðalánasjóði bendir þetta allt til að virkari samkeppni sé nú á markaði nýbygginga kaupendum í hag.
Líkur á fyrirhuguðum fasteignakaupum minnkað lítillega
Líkur einstaklinga á að kaupa sér fasteign á næstu sex mánuðum hefur lækkað lítillega frá því í mars í fyrra, bæði utan höfuðborgarsvæðisins og innan þess, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Zenter gerði fyrir Íbúðalánasjóðs.
Þessar niðurstöður eru nokkuð á skjön við vísitölu fyrirhugaðra húsnæðiskaupa frá Gallup, sem mældi mikla hækkun á þeim mælikvarða milli mars og júní í ár.