Erlendum ferðamönnum til Íslands hefur fækkað um rúmlega 13 prósent það sem af er ári. Ferðamönnum hefði þó fækkað mun meira ef farþegasamsetning í leiðakerfi Icelandair hefði ekki breyst, að því er fram kemur í árlegri ferðaþjónustuúttekt Arion banka.
Ferðamenn dvelja nú lengur á landinu og eyða fleiri krónum. Arion banki spáir að ferðamönnum muni fjölga um 2 prósent á næsta ári, 7 prósent árið 2021 og 4 prósent á árinu 2022.
Tveir af hverjum þremur komið til landsins með Icelandair
Í úttekt Arion banka kemur fram að frá því að flugfélagið WOW air hætti starfsemi í lok mars á þessu ári hefur ferðamönnum fækkað um 17 prósent samborið við sama tímabil í fyrra. Ferðamönnum tók þó að fækka strax við ársbyrjun enda hafi WOW air dregið segl sín umtalsvert saman áður en rekstur
þess stöðvaðist og hefur þeim fækkað um 13 prósent frá ársbyrjun.
Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 30 prósent fleiri ferðamenn til Íslands en á síðasta ári, á meðan heildarfjöldi farþega félagsins hefur aukist um 11 prósent. Það skýrist af breyttri samsetningu farþega í leiðakerfi Icelandair.
Í úttektinni segir að samsetning farþega í leiðakerfi Icelandair hefði haldist óbreytt frá 2018 má áætla að um 100 þúsund færri ferðamenn hefðu heimsótt landið þar sem af er þessu ári, að öðru óbreyttu. Í stað þess að ferðamönnum hafi fækkað um 13 prósent væri samdrátturinn nær 20 prósentum.
Hver ferðamaður eyðir mun meira
Ferðaþjónustan verður áfram langstærsta útflutningsgrein Íslendinga og tekjusamdráttur ferðaþjónustu verður líklega minni í ár en Arion banki óttaðist. Lengri dvalartími ferðamanna og aukin neysla hvers og eins ferðamanns, bæði í krónum og erlendri mynt, spilar þar inn í.
Á öðrum ársfjórðungi 2019 jókst neysla á hvern ferðamann um 10 prósent í erlendri mynt og 24 prósent í krónu. Samkvæmt greiningu bankans má rekja þessa auknu neyslu til minni oftalningar ferðamanna en áður, áherslubreytingu hjá Icelandair og breyttrar samsetningar ferðamanna í kjölfar falls WOW air.
Í greiningu Arion banka kemur fram að viðbúið að neysla myndi aukast sökum gengisveikingar krónunnar en hversu mikla aukningu kom á óvart. Hver ferðamaður eyddi að meðaltali 36 þúsund fleiri krónum á öðrum ársfjórðungi en fyrir ári síðan, sé ekki leiðrétt fyrir gengi.
Dvelja nærri sólarhring lengur
Í kjölfar gjaldþrots WOW air í mars jókst vægi erlendra flugfélaga í flugframboði landsins en erlend flugfélög fljúga alla jafna sjaldnar í viku til landsins. Sú þróun sem og áherslubreyting hjá Icelandair virðist hafa leitt til þess að hver ferðamaður dvelur lengur og eyðir meira. Til að mynda voru meðalútgjöld hvers ferðamanns á vegum WOW air 44 þúsund króna lægri í fyrra en ferðamanns á vegum Icelandair.
Dvalartími allra þjóðerna, að Kínverjum og Pólverjum undanskildum, hafa lengst frá falli WOW air ef miðað er við hótelgistinætur eða alls 17 prósent aukning á hvern ferðamann. Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum voru samtals 2,2 milljónir á fyrstu sjö mánuðum ársins og fækkaði um 1 prósent milli ára.
Rúmlega fjórðungs færri sæti í boði í vetur
Arion banki spáir að framboðssamdrátturinn í flugi sem varð til með brotthvarfi WOW air verði mætt með takmörkuðu leyti í vetur. Erlend flugfélög munu auka framboð sitt um sjö prósent í vetur og munu alls þrettán flugfélög bjóða upp á reglulegar áætlunarferðir í vetur, jafn mörg og í fyrra.
Þrátt fyrir það verða rúmlega 20 prósent færri flugsæti í boði til landsins miðað við fyrravetur.
Að lokum spáir bakinn að ferðaþjónustan eigi eftir að taka við sér á næsta ári en það hægt. Grunnspá bankans gerir ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga um 2 prósent á næsta ári. Þá er tekið fram í úttektinni að fjölgun ferðamanna muni þó ráðast að miklu af því hvort að hér takist á loft nýtt flugfélag.