Efling segir að ganga þurfi lengra í skattkerfisbreytingum hér á landi en gert sé í nýju fjárlagafrumvarp stjórnvalda. Verkalýðsfélagið segir að í megindráttum sé komið til móts við kröfur verkalýðsfélaganna um lægra fyrsta álagningarþrep og að því megi fagna en að þeirra mati þurfi að ganga lengra í átt að sanngjarnara skattkerfi. Þetta kemur fram í umsögn Eflingar um fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar stjórnvalda.
Betri niðurstaða en útlit var fyrir
Í umsögninni segir að Efling hafi lagt mikla áherslu á umbætur í skattamálum fyrir lágtekjufólk í tengslum við kjarasamningana á síðasta vetri. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2020 sem sem kynnt var í síðustu viku er í megindráttum komið til móts við kröfur verkalýðsfélaganna um lægra fyrsta álagningaþrep sem færir þeim tekjulægstu um 10.000 króna skattalækkun á mánuði þegar allt verður fram komið.
Skattalækkunin er mest hjá þeim sem hafa mánaðartekjur á bilinu 325.000 til 375.000 króna, en fjarar svo út með hærri tekjum. Þeir sem fái mest fái nálægt 120.000 krónum á ári í lækkun tekjuskatts.
Efling bendir á að stjórnvöld hafi fyrst, í febrúar síðastliðnum, kynnt hugmyndir sínar um skattalækkun að hámarki 6.759, sem kæmi til framkvæmdar á þremur árum og því hafi náðst betri niðurstaða en útlit var fyrir.
„Verkalýðshreyfingin náði því betri niðurstöðu en útlit var fyrir í febrúar. Því má fagna. En lengra þarf að ganga,“ segir í umsögn sinni.
Ekki tekið á fjármagnstekjum
Í umsögn Eflingar segir að stjórnvöld hafi ítrekað á síðustu áratugum reynt að færa skattbyrði af þeim sem fái háar tekjur og eiga mikinn auð yfir á þá sem vinni fyrir lægstu laun. „Við höfum búið við tvöfalt skattkerfi, þar sem eignafólk hefur notið mun lægri álagningar á fjármagnstekjur en launafólk og sloppið við að greiða útsvar af þeim. Auk þess hefur álagning á hæstu tekjur verið lægri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.“
Efling bendir á að ekki sé tekið á þessu í fyrirhuguðum skattkerfisbreytingum stjórnvalda. Verkalýðsfélagið segir að ef farið hefði verið að tillögum Eflingar, sem meðal annars koma fram í skýrslu Stefán Ólafssonar og Inriða H. Þorlákssonar, Sanngjörn dreifing skattbyrðar, þá hefði vissulega verið hægt að ganga mun lengra í að bæta kjör lægri og milli tekjuhópa.
Á meðal tillaga voru hátekjuskattar, „eðlilegri“ fjármagnstekjuskattur, auðlegðarskattur, hærri auðlindagjöldum og virkari aðgerðum gegn undanskotum.
Efling telur þó að þær skattbreytingar sem stjórnvöld boði nú í fjárlögum sýni að hægt sé að ná umtalsverðum árangri í að lækka skattbyrði láglaunafólks án þess að raska fjármálum hins opinbera á nokkurn hátt og það á samdráttartíma sem þessum.
„Efling leggur áherslu á að þetta verði áframhaldandi verkefni í skattaumbótum á komandi árum og mun leggja sitt af mörkum til að ná því fram. Efling hafnar einnig öllum hugmyndum um nefskatta, svo sem veggjöld, og aukna greiðsluþátttöku í velferðarkerfinu, sem leggst alla jafna með mestum þunga á þá sem hafa lægri tekjur. Með réttlátu skattkerfi er hægt að efla velferðarkerfi fyrir alla og stemma stigu við samfélagi sem býður hágæða þjónustu fyrir hálaunafólk, en lágmarksþjónustu fyrir þau tekjulægstu,“ segir að lokum í umsögninni.