Von er á nýrri bók frá Andra Snæ Magnasyni sem mun koma út í byrjun október næstkomandi. Nýja bókin heitir Um tímann og vatnið en Andri Snær hefur verið ötull umhverfisverndarsinni til fjölda ára. Bók hans Draumalandið – sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð sem kom út snemma árs 2006 vakti mikla athygli og umræður í þjóðfélaginu öllu.
Um tímann og vatnið fjallar um stóru breytingarnar sem vísindamenn sjá fyrir sér á næstu 100 árum hvað varðar eðli alls vatns á jörðinni. Þegar jöklar bráðna, hafsborðið rís, höfin súrna og veðrakerfin fara úr jafnvægi.
Andri Snær segir í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni að málefnið sé svo stórt að það sé „stærra en tungumálið og öll okkar fyrri reynsla.“ Til að skilja málefnið þurfi að skrifa í kringum það, til að fjalla um framtíðina þurfi að skrifa um fortíðina og til að skilja vísindi þurfi að vísa í goðafræði.
Hann segir að verkið hafi fylgt sér mörg síðustu ár og þróast í fyrirlestrum og samtölum við vísindamenn í háskólum víða um heim. „Þetta er ferðasaga, heimssaga og fjölskyldusaga, hér eru jöklar, kóralrif og krókódílar og tvö stór viðtöl sem ég tók við Dalai Lama. Nafn hans þýðir „hið víðáttumikla haf“ á mongólsku,“ skrifar hann.
Nýja bókin mín er komin í prentun, hún heitir ,,Um tímann og vatnið" og kemur út í byrjun október. Ég verð einnig með...
Posted by Andri Snær Magnason on Wednesday, September 11, 2019