Veiðigjald fyrir veiðiheimildir verður um sjö milljarðar króna á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var síðastliðinn föstudag.
Það er mjög sambærileg upphæð og útgerðir landsins munu greiða fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni í ár, 2019. Tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldinu árið 2018 voru 11,4 milljarðar króna, samkvæmt ríkisreikningi fyrir það ár.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi um síðustu áramót þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Í fjárlagafrumvarpinu segir að með breytingunum sé dregið úr töf við meðferð upplýsinga um átta mánuði. „Þá er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.
Gríðarlegur hagnaður á undanförnum áratug
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiddu út hærri arðgreiðslur á árinu 2017 en þau hafa nokkru sinni gert áður. Alls fengu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja 14,5 milljarða króna greiddan í arð á árinu 2017 vegna frammistöðu ársins á undan.
Frá árinu 2010, og út árið 2017, voru arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna 80,3 milljarðar króna. Frá hruni og til loka árs 2017 batnaði eiginfjárstaða sömu fyrirtækja um 341 milljarða króna, og þar af batnaði hún um 41 milljarð króna 2017. Því vænkaðist hagur sjávarútvegarins um 421,3 milljarða króna á tæpum áratug. Vert er að taka fram að eiginfjárstaða geirans var neikvæð í lok árs 2008 en er var jákvæð um 262 milljarða króna í lok árs 2017, samkvæmt tölum úr Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte. Nýjar tölur, sem sýna afkomu greinarinnar 2018, verða kynntar á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn verður síðar í þessum mánuði.