Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að heimurinn sé ekki að farast en úrlausnarefnin séu samt mörg og stór. Það eigi ekki hvað síst við um umhverfismálin. „Við hljótum að vilja nálgast vandamálin með það að markmiði að finna bestu lausnirnar fremur en að nota þau sem efnivið sýndarstjórnmála.“
Þetta skrifar hann í stöðuuppfærslu á Facebook eftir að Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýndu ræðu hans á Alþingi í gær. Þau sökuðu hann um að fara með rangfærslur um loftslagsmál.
Segir hann í færslu sinni að heimsendaspámenn taki því jafnan illa þegar bent sé á að heimurinn sé ekki að versna alveg eins mikið og þeir halda fram.
„Í umræðum á þinginu í gær nefndi ég mikilvægi þess að taka á loftslagsmálum af skynsemi og á grundvelli vísinda. Þegar loftslagsbreytingum er kennt um allar ófarir manna og ítrkað spáð yfirvofandi heimsendi er ekki líklegt að gripið verði til réttra aðgerða til að takast á við vandann í raun,“ skrifar hann.
Sigmundur Davíð segist jafnframt hafa bent á að tal um að hvirfilbyljir væru orðnir miklu fleiri og stærri en áður væri ekki rétt. Aðstoðarmaður ráðherra hefði þá látið boð út ganga um að það þyrfti að stöðva slíka umræðu í fæðingu.
„Í því augnamiði leyfðu menn sér að fara frjálslega með eins og stundum áður í þessum málaflokki. Því var haldið fram að ég hefði verið að vitna í einhvern félagsskap í Bretlandi sem væri skipaður einhvers konar rugludöllum. Þar af leiðandi væri þetta vitleysa (þið sjáið hvað þetta er traust röksemdafærsla).
Ég var hins vegar ekki að vitna í félagsskapinn í Bretlandi sem ég hafði aldrei heyrt um heldur í Sameinuðu þjóðirnar og gögn þeirra,“ skrifar hann.
Heimsendaspámenn taka því jafnan illa þegar bent er á að heimurinn sé ekki að versna alveg eins mikið og þeir halda...
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Thursday, September 12, 2019