Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt þrjár tillögur þess efnis að hækka gjaldskrá, stækka gjaldskyldsvæði og lengja gjaldskyldutíma bílstæða í miðbænum. Ráðið samþykkti að lengja gjaldskyldu á gjaldsvæði 1 til átta á virkum dögum og laugardögum. Auk þess var samþykkt að hefja gjaldskyldu á sunnudögum og að gjaldskrá á gjaldsvæðunum fjórum verði hækkuð.
Gjaldskylda á sunnudögum
Þrjár tillögur voru samþykktar á fundiskipulags- og samgönguráðs í gær með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Tillögurnar þrjár voru samþykktar með atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Viðreisnar og fulltrúa Samfylkingarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Ráðið samþykkti að lengja gjaldskyldutíma á gjaldsvæði 1 á virkum dögum og laugardögum. Samþykkt var að gjaldskyldutími á gjaldsvæði 1 verði lengdur til klukkan 20:00 á virkum dögum og á laugardögum. Í dag er gjaldskylda til klukkan 18:00 á virkum dögum og til klukkan 16:00 á laugardögum.
Auk þess var samþykkt að hefja gjaldskyldu á gjaldsvæði 1 á sunnudögum frá klukkan 10:00 til klukkan 16:00.
Klukkutíminn á gjaldsvæði 1 kostar nú 400 krónur
Önnur tillaga sneri að hækka gjaldskrá á öllum gjaldsvæðunum fjórum. Ráðið samþykkti að á gjaldsvæði 1 verði gjaldið nú 400 krónur á klukkustund, 200 krónur á klukkustund á gjaldsvæði 2, 100 krónur á klukkustund á gjaldsvæði 3 og 200 krónur á klukkustund á gjaldsvæði 4.
Þá var einnig samþykkt tillaga um að gjaldsvæði 1 verði stækkað, þar á meðal að hluti af Borgartúni verði gert að gjaldsvæði 1.
Harkalegar aðgerðir á meðan Strætó er ekki fýsilegur kostur
Ásgerður Jóna Flosadóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, bókaði á fundinum að tillögurnar þrjár snerust um að gera bílafólki eins erfitt fyrir hægt væri að koma bílnum sínum í bæinn. Hún sagði að annar ávinningur væri ekki sýnilegur.
„Afleiðingar munu ekki standa á sér, æ fleiri Íslendingar, íbúar úthverfa munu hætta leggja leið sína í bæinn. Þetta eru harkalegar aðgerðir á meðan ekki er boðið upp á Strætó sem fýsilegan kost. Flokkur fólksins vill ítreka að borgin er fyrir alla, líka þá sem koma á bíl sínum,“ segir í bókun Ásgerðar.
Fulltrúar Pírata. fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Viðreisnar gagnbókuðu bókun Ásgerðar og sögðu að stækkun gjaldskyldra svæða og lenging gjaldskyldutíma sé í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið og útfærð í stýrihópi um bílastæðamál.
„Markmiðin eru: betri stýring umferðar, hagkvæmari nýting stæða og auknar tekjur. Sanngjörn gjaldtaka hvetur til fjölbreyttari ferðamáta og minnkar umfang þess að fallegt borgarrými sé nýtt sem langtímageymslusvæði fyrir bíla,“ segir í bókuninni.