Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fjallaði um loftslagsmál í umræðu í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra. Sagði hann að loftslagsmálin væru vissulega stórt og mikilvægt mál en þau ættu það sameiginlegt með öðrum þeim málum sem vekja mesta athygli að þeir sem tala mest um þau nálgist þau oft á kolrangan hátt.
Hann sagði jafnframt að Alþjóðaveðurfræðistofnunin hefði nýlega varað við „ofstæki í loftslagsmálum”. Þar vitnaði hann í Global Warming Policy Forum (GWPF), bresk samtök sem afneita vísindalegum niðurstöðum um loftlagsbreytingar. Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands segir að um þekkta svindlara sé að ræða. Þá benda samtökin á að í nýlegri fréttatilkynningu frá GWFP segi að David Attenborough hafi falsað atriði í mynd sinni Our Planet.
„GWFP er alls óskyld Veðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna, WMO, en GWFP flaggar gjarnan lógó-i WMO og höfuðpaurinn titlar sig sem WMO Secretary General. Öruggt er að WMO hefur ekki varað við „ofstæki í loftslagsmálum“,“ segir í tilkynningunni.
Segir meiri byggð en áður og tjónið því meira
Sigmundur Davíð sagði enn fremur í ræðu sinni að forsætisráðherra hefði haldið því fram að fellibyljir væru orðnir tíðari og öflugri en áður. „Munurinn liggur í því að nú er mun meiri byggð en áður á þeim svæðum þar sem fellibyljir eru algengastir og tjónið því meira,” sagði hann.
Sigmundur Davíð GunnlaugssonRæða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Alþingi fyrr í kvöld, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra.
Posted by Miðflokkurinn on Wednesday, September 11, 2019
Þá benda Náttúruverndarsamtök Íslands á að í fréttatilkynningu WMO frá 3. september síðastliðnum um tengsl loftslagsbreytinga og fellibylja, segi að svæði sem liggja lágt við ströndina séu viðkvæm fyrir áhrifum fellibylja sem orsakist af rigningum, miklu vatnsflæmi, og sérstaklega af óveðri sem magnist vegna hækkunar yfirborðs sjávar vegna loftslagsbreytinga. Þá segi enn fremur að fellibyljir muni líklegast aukast á 21. öldinni af völdum hlýnunar af mannavöldum.
„Hefur sig upp með innihaldslausu tali“
„Nýverið kom fram að litlar efasemdir eru meðal landsmanna um loftslagsbreytingar. Svo hefur verið í mörg ár. Þetta veit Sigmundur Davíð mæta vel og í stað þess að andæfa vísindunum beint vitnar hann í þekkta svindlara og hefur sig upp með innihaldslausu tali um nauðsyn þess „að beita vísindum og skynsemi”,“ segir í tilkynningu Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Samtökin segjast enn fremur vona innilega að þingmenn varist slíkan málflutining í umræðum um loftslagsvána – neyðarástand sem alþjóðasamfélagið standi frammi fyrir.