Rakel Óttarsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka frá 2016, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá bankanum. Síðasti starfsdagur hennar verður föstudaginn 20. september, eða eftir átta daga.
Rakel hefur starfað hjá bankanum frá árinu 2005 og setið í framkvæmdastjórn bankans frá árinu 2011 þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra þróunar- og markaðssviðs.
Fyrir þremur dögum síðan var greint frá því að Jónína S. Lárusdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka um árabil, muni láta af störfum hjá bankanum föstudaginn 13. september. Ekki var tilgreint í fréttatilkynningu frá bankanum af hverju Jónína er að láta að störfum.
Jónína hefur verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs og setið í framkvæmdastjórn bankans í um níu ár eða frá nóvember 2010.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að Birna Hlín Káradóttir, sem starfað hefur sem yfirlögfræðingur Fossa markaða í tæp fjögur ár, hafi sagt upp störfum hjá verðbréfafyrirtækinu og væri á leið til starfa hjá Arion banka. Hún tæki þar við hlutverki Jónínu.
Umtalsverðar hræringar hafa verið í framkvæmdastjórn Arion banka á þessu ári. Benedikt Gíslason var ráðinn í starf bankastjóra bankans í júnílok og tók við því starfi 1. júlí síðastliðinn. Hann tók við af Höskuldi H. Ólafssyni, sem hafði verið bankastjóri í níu ár. Höskuldur fékk 150 milljóna króna starfslokagreiðslu þegar hann hætti störfum.