Embætti landlæknis gerði alvarlegar athugasemdir í byrjun sumars við drög að breytingu á reglugerðum um baðstaði í náttúrunni og um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.
Breytingarnar vörðuðu veitingaþjónustu á baðstöðum, svo sem í afþreyingarlaugum, en þær tóku gildi þann 5. september síðastliðinn. Þá kom fram á samráðsgátt stjórnvalda að baðstaðir í náttúrunni, eins og til að mynda Bláa lónið, hefðu um árabil boðið upp á takmarkaðar veitingar á baðsvæðum og hefði þar verið farið eftir þeim verklagsreglum sem fram koma í starfsleyfi.
Lagt var til með breytingunum að kveðið yrði á um í reglugerðinni að heimilt væri að veita áfengi í takmörkuðu magni á baðstað og að fjallað yrði um það í öryggisreglum og starfsleyfi.
Embætti landlæknis skilaði inn umsögn á samráðsgátt í sumar en embættið varaði við tillögu stjórnvalda varðandi áfengi á baðstöðum. „Sú breyting sem lögð er til er til þess fallin að auka enn frekar aðgengi að áfengi og er líkleg til að auka enn á flækju og erfiðleika þeirra sem sinna gæslu og bera ábyrgð á öryggi gesta. Það að auki eru baðstaðir fjölskyldustaðir þar sem börn eru tíðir gestir, ein eða með fjölskyldu,“ stendur í umsögninni.
Ekki til fyrirmyndar fyrir börn
Það að áfengi yrði gert að vöru sem tilheyrði heilbrigðri útiveru og heilsurækt væri ekki til fyrirmyndar fyrir börn og sendi þau skilaboð að notkun áfengis væri hluti af því að stunda baðstaði. Þá væru jafnframt vísbendingar um að notkun áfengis á baðstöðum gæti leitt til aukinnar hættu á slysum.
Að mati landlæknis var óljóst hvert markmiðið væri með umræddri breytingu á reglugerðinni. „Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum kemur skýrt fram að einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ekki heimill aðgangur að sund- og baðstöðum. Ætla má að umrædd reglugerðarbreyting fari ekki saman við tilvitnað ákvæði í þessari reglugerð,“ segir í umsögn embættis landlæknis.
Vandséð að stefnubreytingin væri í takt við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum
Þá taldi landlæknir vandséð að þessi opinbera stefnubreyting væri í takt við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Yfirmarkmið stefnunnar er samfélag sem einkennist af heilbrigðu umhverfi þar sem einstaklingum stafi ekki hætta af notkun eða misnotkun áfengis eða annarra vímugjafa.
Meðal þeirra aðgerða sem lagðar eru til í stefnunni, til að ná yfirmarkmiðinu, væri að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum. Í lokaorðum stefnunnar segir meðal annars: „Mikilvægt er við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar áfengi, ólögleg vímuefni og misnotkun ávana- og fíknilyfja og vefaukandi stera að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðferðum. Einnig er mikilvægt að virkja allt samfélagið til skilnings og samstöðu um aðgerðir og viðhorf til áfengis og annarra vímugjafa.“
Brýnt að stíga varlega til jarðar
Samkvæmt embætti landlæknis er afar brýnt að stíga varlega til jarðar við allar aðgerðir sem líklegar eru til þess að auka aðgengi að áfengi og eru þar með líklegar til að hafa áhrif á heilsu og viðhorf þjóðarinnar. „Gera verður kröfu um að slíkar aðgerðir séu vel rökstuddar og ígrundaðar. Tillaga sem er til þess fallin að auka áfengisnotkun þjóðar og hafa heilsufarsleg áhrif á að fara í gegnum lýðheilsumat þar sem lagt er mat á líkleg bein og óbein áhrif af breytingunum,“ segir að lokum í umsögninni.
Eftir að málið fór í gegnum samráðsgátt voru þær breytingar gerðar að settur var inn aðlögunartími til að finna réttar eða hentugar umbúðir og tilgreint var að breytingin varðaði afþreyingarlaugar.