Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram bókun á fundi borgarráðs í gær þar sem hún lýsir furðu yfir tveimur dagskrárliðum í fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga en í þeim liðum er fjallað um siðanefnd sambandsins og hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa. Fundurinn sambandsins var haldinn þann 30. ágúst síðastliðinn.
Vigdís spyr í bókun sinni hvort þetta hafi verið brýnu málin af þeim 38 dagskrárliðum sem farið var í. „Það er greinilega mikið að gera hjá siðanefnd en hún hefur fundað fjórum sinnum frá 10. apríl,“ segir í bókun Vigdísar.
Þá fer Vigdís yfir fundargerð sambandsins og gerir dagskrárlið fimm að umtalsefni sem ber heitið Hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa. Þar voru lögð fram „drög um fagteymi sambandsins vegna brota á hegðunarreglum fyrir kjörna fulltrúa“ dags. 20. ágúst 2019 og „uppfærðar hegðunarreglur“ dags. 21. ágúst 2019. Siðanefnd var falið að vinna málið áfram og leggja fyrir næsta stjórnarfund ásamt kostnaðarmati vegna málsins.
Vigdís telur að Samband íslenskra sveitarfélaga sé komið á hálan ís og „langt, langt fram úr hlutverki sínu.“
Spyr hvort sveitastjórnarstigið sé komið á leikskólastig
„Hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa? Er sveitastjórnarstigið komið á leikskólastigið með fullri virðingu fyrir leikskólabörnum. Nú stendur til að fjötra málfrelsi kjörinna fulltrúa bæði með siðareglum og hegðunarreglum góða fólksins. Undir hvora regluna fellur það þegar t.d. kjörinn fulltrúi ullar á annan? Óskað er eftir að borgarráð fái drög að þessum hegðunarreglum og brota á þeim fyrir kjörna fulltrúa. Ekki er hægt að fjötra málfrelsi kjörinna fulltrúa með heimatilbúnum reglum sem eiga sér ekki lagastoð. Það sannaðist í nýlegu máli þegar rannsóknarréttur ráðhússins var virkjaður fyrir upplognar sakir í ímynduðu eineltismáli gegn kjörnum fulltrúa,“ kemur fram í bókun Vigdísar.
Hagur sveitarfélaga að stuðla að öryggi kjörinna fulltrúa
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata lögði fram gagnbókun þar sem segir að í kjölfar #metoo hafi það afhjúpast að þörf sé á að kjörnir fulltrúar rétt eins og aðrir hugi að því hvort framkoma þeirra og hegðun sé að valda öðrum vanlíðan eða sé hreinlega áreitni eða ofbeldi.
„Siðanefnd Sambands Íslenskra sveitarfélaga er leiðbeinandi fyrir sveitarfélög um setningu siðareglna og hefur nú unnið drög að leiðbeinandi hegðunarreglum sem sveitarfélög gætu sett sér kjósi þau það. Akureyri hefur þegar sett sér slíkar reglur og fleiri sveitarfélög huga að því og er það vel. Það er hagur sveitarfélaga að stuðla að öryggi kjörinna fulltrúa. Ekki kemur á óvart að fulltrúi Miðflokksins sé ekki hlynntur slíku ef horft er til framgöngu sumra fulltrúa þess flokks undanfarið og Klausturmálið,“ segir í bókuninni.
„Klausturmál trimmað upp á sveitastjórnarstiginu“
Vigdís brást við og hélt því fram í annarri gagnbókun að afhjúpunin væri algjör. „Nú skal hið svokallaða Klausturmál trimmað upp á sveitastjórnarstiginu. Minnt er á að varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga situr í borgarráði. Er þetta stefna sambandsins? Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins fer ekki niður á sama plan og meirihlutinn að ræða kynferðisafbrot kjörinna fulltrúa á vinstri vægnum þrátt fyrir að slíkt er staðreynd,“ segir hún.
Hún telur gagnbókun meirihlutans dæma sig sjálf og að hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa eigi ekkert skylt við gróft ofbeldi. Slíkt eigi heima hjá lögreglunni og þá hugsanlega í framhaldi af því hjá dómstólum. Verið sé að næra dómstól götunnar með ólögbundnum hegðunarreglum.