Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að verið sé að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann. Þeir sem séu að gera það séu lögreglumenn sem telji sig eiga harma að hefna gegn honum, meðal annars vegna þess að hann hafi gripið inn í vegna starfshátta eða framkomu þeirra eða vegna þess að þeir hafi ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir. Ef til starfsloka hans komi kalli það á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.
Þetta kemur fram í viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Haraldur að gagnrýni hans á framgöngu lögreglumanna eigi þátt í því sem hann kallar aðför gegn sér. Hann segist hafa bent á að spilling ætti ekki að líðast innan lögreglunnar. „Hluti af umræðunni sem er að brjótast fram núna er kannski einnig vegna þeirrar afstöðu minnar. Ég hef til dæmis bent á að það fari ekki saman að lögreglumenn séu meðfram starfi sínu í pólitísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki saman.“ Umræða um bílamál lögreglunnar sé hluti af þeirri rógsherferð að óreiða sé í fjármálum ríkislögreglustjóra.
Lögreglufélög kölluðu á stjórnsýsluúttekt
Töluverðar deilur hafa verið innan lögreglunnar, og þá einkum í garð Ríkislögreglustjóra, að undanförnu, en í fréttum RÚV hefur meðal annars komið fram að þær tengis fatamálum lögreglu og bílamálum, ásamt öðrum málum.
Fjölmörg lögregluembætti í landinu hafa lýst yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna sem hafa undanfarið sett þrýsting lögreglustjóra landsins á að láta fara fram alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra.
Ákveðið var að Ríkisendurskoðun ráðist í slíka úttekt í liðinni viku.
Haraldur sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag þar sem sagði að ályktanir lögreglufélaga, gegn embætti ríkislögreglustjóra, væru ekki til þess fallnar að skapa frið um störf lögreglu. Þá sagði að yfirlýsingar sem „ali á ótta“ geti verið til þess fallnar að bitna á öryggi almennings og það sé ámælisvert. „Við þetta ástand verður ekki unað enda kastar það rýrð á lögregluna og störf hennar sem grefur undan því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar. Á endanum gæti þetta ástand því komið niður á öryggi almennings,“ sagði í yfirlýsingunni.
Hann sagðist þar einnig fagna fyrirhugaðri úttekt ríkisendurskoðanda á embættinu.