„Ef að ríkislögreglustjóri veit af spillingu innan lögreglunnar ber honum skylda til þess að tilkynna slíkt.“ Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og líkast til verðandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í nýrri stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar segir hún enn fremur að henni finnist vel skoðandi að láta Harald Johannessen ríkislögreglustjóra koma fyrir nefndina til að skýra orð sín í viðtali við Morgunblaðið í gær, en til stendur að kjósa Þórhildi Sunnu sem formann nefndarinnar á fundi hennar á morgun.
Ef að ríkislögreglustjóri veit af spillingu innan lögreglunnar ber honum skylda til þess að tilkynna slíkt. Mér finnst því vel skoðandi að hann komi fyrir stjórnakipunar- og eftirlitsnefnd og skýri orð sín.
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Sunday, September 15, 2019
Í viðtalinu í Morgunblaðinu sagði að verið sé að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann.
Telur aðför vera í gangi gegn sér
Þar sagði Haraldur að gagnrýni hans á framgöngu lögreglumanna eigi þátt í því sem hann kallar aðför gegn sér. Hann sagðist hafa bent á að spilling ætti ekki að líðast innan lögreglunnar. „Hluti af umræðunni sem er að brjótast fram núna er kannski einnig vegna þeirrar afstöðu minnar. Ég hef til dæmis bent á að það fari ekki saman að lögreglumenn séu meðfram starfi sínu í pólitísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki saman.“ Umræða um bílamál lögreglunnar sé hluti af þeirri rógsherferð að óreiða sé í fjármálum ríkislögreglustjóra.
Haraldur sagði í viðtalinu að „svívirðilegum aðferðum [sé beitt] í valdatafli, hagsmunagæslu og pólitík“ og að of stór hluta af fjármunum til lögreglunnar á Íslandi renna í „hátimbraða yfirmannabyggingu“. Því þurfi að ráðast í sameiningu lögregluembætta.
Stjórnsýsluúttekt í farvatninu
Töluverðar deilur hafa verið innan lögreglunnar, og þá einkum í garð Ríkislögreglustjóra, að undanförnu, en í fréttum RÚV hefur meðal annars komið fram að þær tengis fatamálum lögreglu og bílamálum, ásamt öðrum málum.
Fjölmörg lögregluembætti í landinu hafa lýst yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna sem hafa undanfarið sett þrýsting lögreglustjóra landsins á að láta fara fram alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra.
Ákveðið var að Ríkisendurskoðun ráðist í slíka úttekt í liðinni viku.
Haraldur sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag þar sem sagði að ályktanir lögreglufélaga, gegn embætti ríkislögreglustjóra, væru ekki til þess fallnar að skapa frið um störf lögreglu. Þá sagði að yfirlýsingar sem „ali á ótta“ geti verið til þess fallnar að bitna á öryggi almennings og það sé ámælisvert. „Við þetta ástand verður ekki unað enda kastar það rýrð á lögregluna og störf hennar sem grefur undan því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar. Á endanum gæti þetta ástand því komið niður á öryggi almennings,“ sagði í yfirlýsingunni.
Hann sagðist þar einnig fagna fyrirhugaðri úttekt ríkisendurskoðanda á embættinu.