Þegar um 6 prósent af olíuframleiðslu heimsins stöðvast þá hefur það víðtækar afleiðingar um allan heim, eins og von er. Drónaárás uppreisnarmanna Húta á ríkisolíufyrirtæki Sádí-Araba, Aramco, hefur haft víðtækar afleiðingar um allan heim, enda hefur olíuverð rokið upp. Hækkunin nemur á bilinu 10 til 20 prósent, á heildina litið, en misjafnlega mikið eftir tegundum og mörkuðum.
Sé horft til þróunar í Bandaríkjunum þá hefur olíuverð hráolíu í dag hækkað um 14,97 prósent, og stendur nú í tæplega 70 Bandaríkjadölum á tunnuna, samkvæmt markaðsmælaborði Wall Street Journal.
Aramco er með um 10 prósent hlutdeild í olíuframleiðslu heimsins, og er eitt stærsta fyrirtæki heimsins. Heildartekjur þess í fyrra námu 355,9 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 45 þúsund milljörðum króna.
Samkvæmt Wall Street Journal er talið að um 5,7 milljónir tunna af olíu, á dag, hafi fallið úr framleiðslu Aramco vegna árásarinnar, og er nú unnið að viðgerð. Ekki er ljóst hversu langan tíma hún mun taka.
Bandarísk stjórnvöld hafa nú þegar komið þeim skilaborðum formlega til yfirvalda í Sádí-Arabíu, að það sé mat yfirvalda að rótina að árásunum megi rekja til yfirvalda í íran, en uppreisnarmenn Húta, sem Íran hefur stutt í skelfilegum átökum í Jemen, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Ekki liggur fyrir hvernig Sádí-Arabía mun bregðast við árásunum, en samkvæmt Wall Street Journal, hefur meðal annars verið rætt um að bregðast við með árás á Íran.
Hlutabréfamarkaðir hafa víðast hvar sýnt tölur lækkana í dag, en þó ekki meira en á bilinu 0,3 til 2 prósent, sé horft til meðaltals helstu hlutabréfavísitalna.
Á Íslandi var rauður dagur lækkana í dag, en erfitt er að segja til um það með vissu hvort þessar væringar á alþjóðamörkuðum höfðu áhrif á Íslandi. Markaðsvirði allra félaga í kauphöllinni lækkaði nema hjá Heimavöllum, TM og Sýn, en engin viðskipti voru með bréf þeirra félaga.
Skörp olíuverðshækkun, eins og hefur verið raunin í dag, gæti aukið verðbólguþrýsting hér á landi, en það fer eftir því hvernig olíuverðsþróunin verður á næstu misserum. Verðbólga er nú 3,2 prósent, en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Vísitala markaðarins lækkaði um 2,1 prósent en mest var lækkunin á bréfum Brims og Icelandair, sem bæði eiga mikið undir olíuverði. Virði Brims lækkaði um 2,93 prósent, og er nú 65,2 milljarðar, og virði Icelandair lækkaði um 4,28 prósent og er nú 35,3 milljarðar.