Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er orðinn formaður umhverfis- og samgöngunefndar að nýju. Hann hlaut tvö atkvæði, frá sjálfum sér og samflokksmanni sínum Karli Gauta Hjaltasyni, í kosningu á formanni nefndarinnar fyrr í dag. Aðrir nefndarmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna samkvæmt heimildum Kjarnans.
Fresta þurfti fundi nefndarinnar í gær eftir að gerð hafði verið tillaga um að Karl Gauti yrði frekar formaður hennar en Bergþór, án þess að Karl Gauti sæktist eftir því. Aðrir stjórnarandstöðuþingmenn í nefndinni voru mótfallnir því að Bergþór yrði formaður nefndar í ljósi þess að hann er einn þeirra sem fór mest fyrir á Klausturbar í nóvember 2018 og siðanefnd Alþingis taldi hann hafa brotið siðareglur þingsins með framferði sínu.
Bergþór steig til hliðar sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar í febrúar síðastliðnum vegna Klaustursmálsins og tók Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við formennsku tímabundið. Nefndin hafði þá verið óstarfhæf um tíma en samkvæmt samkomulagi stjórnarandstöðuflokkanna átti nefndarformennska í þessari nefnd að koma í hlut Miðflokksins. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar en Miðflokkurinn vildu hins vegar ekki að Bergþór yrði formaður hennar að nýju vegna Klausturmálsins og að einhver annar úr Miðflokknum sem hefði ekki gerst brotlegur við siðareglur Alþingis myndi taka hana að sér. Á það féllst Miðflokkurinn ekki.
Kastaði rýrð á Alþingi og skaðaði ímynd þess
Siðanefnd fór yfir ummæli Bergþórs um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra.
Í áliti siðanefndar Alþingis um framferði Bergþórs á Klaustri sagði að ummæli sem hann viðhafði þarf væru „öll af sömu rótinni sprottin“. Þau væru ósæmileg og í þeim fælist vanvirðing er lyti að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Einnig væru þau til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.