Alls á að leggja 175 milljónir króna í að bæta stjórnsýslu, eftirlit og heilbrigðiskröfur í fiskeldi á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2020. Það er 41 milljón krónum minna en lögfest gjaldtaka á fiskeldi á að skila í ríkissjóð á næsta ári, en hún á að skila tekjum upp á 134 milljónum króna á árinu 2020.
Því munu skattgreiðendur greiða meira í aukna stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi en ríkissjóður mun innheimta í gjöld af þeim sem stunda atvinnugreinina og geta haft af henni arðsemi.
Eitt helsta áherslumálið
Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna fjárlagafrumvarpsins er tilgreint að 175 milljón króna framlagið vegna fiskeldis sé meðal annars til þess að styrkja eftirlit og stjórnsýslu Matvælastofnunar með fiskeldi.
Um er að ræða eitt helsta áherslumálið í nýbirtum fjárlagafrumvarpi sem heyrir undir málefnasvið Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
134 milljónir vegna gjaldtöku
Alþingi samþykkti 19. júní síðastliðinn stjórnarfrumvarp Kristjáns Þórs um gjaldtöku vegna fiskeldis. Frumvarpið fól einnig í sér að stofnaður verði fiskeldissjóðir og var Fiskistofu falist að annast framkvæmd laganna.
Alls starfrækja sjö rekstraraðilar eldi á fiski í sjókvíum á Íslandi og leggst gjaldið á þá. Aðrir sem stunda fiskeldi, t.d. á landi, eru undanþegnir gjaldinu. Tilgangur gjaldtökunnar á að vera að tryggja ríkissjóði beint endurgjald vegna nýtingar hafsvæða í íslenskri lögsögu.
Þetta gjald á að skila alls 134 milljónum króna í ríkissjóð samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lögðust gegn samþykkt frumvarpsins í sumar. Í fréttabréfi SFS í júní sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, frumvarpið þrengja verulega að rekstrarskilyrðum fiskeldisfyrirtækja og myndi hamla verulega þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg sé í atvinnugreininni svo hún geti til framtíðar skapað góð störf og skilað tekjum til samfélagsins. „Margir þýðingarmiklir agnúar eru á frumvarpinu og um áhrif þeirra fást engin svör, hvorki frá ráðherra né þingmönnum.“