„Nú háttar svo til að stjórnin er sett saman yfir hefðbundnar átakalínur stjórnmálanna sem gerir það að verkum að í stjórnarandstöðu eru saman flokkar sem eiga ekkert sameiginlegt; frjálslyndir vinstri menn og alþjóðlega sinnaðir jafnaðarmenn í Samfó eru í stjórnarandstöðu með íhaldssömum og þjóðernissinnuðum hægri pópúlistum í MIðflokki þar sem ekkert er hægt að stilla saman strengi því við erum ekki með neina sameiginlega strengi.“
Þetta segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Alþingi er sérstakur staður, í senn vinnustaður og átakavettvangur. Þar er ekki yfirmaður - nema kjósendur - og þingmenn...
Posted by Guðmundur Andri Thorsson on Thursday, September 19, 2019
Hann segir að sameiginlegir strengir séu milli Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Þeir flokkar deili stefnu í ótal málum. Auk þess eigi Samfylkingin sumt sameiginlegt með Flokki fólksins. „ Samt lætur stjórnin eins og stjórnarandstaðan sé ein heild og „verði að koma sér saman“ um hlutina, því annars neyðist meirihlutinn til að taka til sín formennsku í öllum nefndum, líka þeim sem fultrúar Pírata og Samfó stýra.“
Braut gegn siðareglum Alþingis
Bergþór steig til hliðar sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar í febrúar síðastliðnum vegna Klaustursmálsins og tók Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við formennsku tímabundið. Nefndin hafði þá verið óstarfhæf um tíma en samkvæmt samkomulagi stjórnarandstöðuflokkanna átti nefndarformennska í þessari nefnd að koma í hlut Miðflokksins. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar en Miðflokkurinn vildu hins vegar ekki að Bergþór yrði formaður hennar að nýju vegna Klausturmálsins og að einhver annar úr Miðflokknum sem hefði ekki gerst brotlegur við siðareglur Alþingis myndi taka hana að sér. Á það féllst Miðflokkurinn ekki.
Í áliti siðanefndar Alþingis um framferði Bergþórs á Klaustri sagði að ummæli sem hann viðhafði þarf væru „öll af sömu rótinni sprottin“. Þau væru ósæmileg og í þeim fælist vanvirðing er lyti að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Einnig væru þau til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.
Afneitari og úrtölumaður í loftlagsmálum
Guðmundur Andri segir í stöðuuppfærslu sinni að Bergþór hafi, með eigin stuðningi og félaga síns, tekist að brjótast með harðfylgi til formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd í gær.
„Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það hvað mér þykir um ölæðisþrugl hans á Klaustri eða framgöngu hans gagnvart náinni samverkakonu minni og vinkonu. Hann er í ofanálag afneitari og úrtölumaður í loftslagsmálum og á að stýra þeirri nefnd þingsins sem við þau mál fæst. En hefði Miðflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, ekki fengið sjálfur að ráða fulltrúa sínum og formanni, hefði allt samkomulag um nefndir verið í uppnámi. Ábyrgðin á Bergþóri liggur hjá honum og félögum hans. Þeir telja hann boðlegan fulltrúa. Það er hlutverk kjósenda í næstu kosningum að skera úr um það hvort hann sé það.“