Samkeppniseftirlitið hefur veitt Skeljungi hf. undanþágu frá banni við framkvæmd samruna vegna kaupa félagsins á öllu hlutafé í Basko ehf. Í undanþágunni felst annars vegar að heimilt er að framkvæma samrunann með þeim skilyrðum að ekki verði gripið til neinna ráðstafana, sem koma í veg fyrir að hægt verði að vinda ofan af samrunanum, verði það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins á síðari stigum að hann sé til þess fallinn að raska samkeppni.
Hins vegar felst í henni að gripið verði til ráðstafana til að tryggja að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist ekki á milli samrunaaðila. Unnið er að útfærslu þeirra ráðstafana í samstarfi við Samkeppniseftirlitið.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Skeljungi sem birt var í Kauphöll Íslands fyrr í dag.
Skeljungur, sem er skráð í íslensku kauphöllina, tilkynnti á mánudag að félagið hefði keypt allt hlutafé í Basko, sem á fimm 10-11 verslanir og rekur fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk sem reknar eru við bensínstöðvar Skeljungs. Þá á Basko veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill, verslunina Kvosina, auk matvöruverslana í Reykjanesbæ og á Akureyri. Alls 50 prósent eignarhlutur Basko í Eldum Rétt er undanskilinn frá kaupunum.
Samkvæmt tilkynningu verður kaupverði 30 milljónir króna auk þess sem yfirteknar verða vaxtaberandi skuldir upp á 300 milljónir króna. Kaupin eru bundin samþykki Samkeppniseftirlitsins og ýmsum öðrum fyrirvörum, meðal annars að upplýsingar frá seljanda um áætlað uppgjör standist.
Árni Pétur Jónsson, sem ráðinn var forstjóri Skeljungs í síðasta mánuði, stýrði áður Basko og átti hlut í fyrirtækinu.