Íslendingar vinna að jafnaði meira en aðrar Evrópuþjóðir. Hvergi annars staðar í Evrópu er hærra hlutfall starfandi fólks í fleiri en einu starfi eða alls 10,7 prósent í fyrra. Þá vinna fleiri Íslendingar langar vinnuvikur á miðað við önnur Evrópulönd, fyrir utan Tyrkland, og vinna einnig oftar á kvöldin utan hefðbundins vinnutíma. Þetta kemur fram í evrópsku vinnumarkaðsrannsókninni.
Ekki nóg að horfa eingöngu til efnahagslegra þátta þegar meta á velsæld
Forsætisráðuneytið hefur birt skýrslu starfshóps um tillögur að mælikvörðum um hagsæld og lífsgæði hér á landi. Skýrslan er hluti af markmiðum ríkistjórnarinnar um að öðlast betri skilning á velsæld, velmegun og félagslegum framförum. Hugmyndin er að með skilvirkari söfnun, greiningu og framsetningu á gögnum sem mæla hagsæld og lífsgæði geti lönd tryggt og aukið velsæld allra í samfélaginu.Starfshópurinn lagði til 39 mælikvarða um velsæld og lífsgæði, þar á meðal eru atvinnumælikvarðar. Í skýrslunni segir að jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé lykilþáttur í velsæld fólks og fjölskyldna. Of lítil vinna hafi bein áhrif á tekjur heimilisins og möguleika fólks á að njóta góðra lífskjara en of mikil vinna þrengir að tíma heimilisins og getur haft áhrif á heilsu og líðan og þannig dregið úr samveru og gæðastundum.
Konur líklegri til gegna tveimur eða fleiri störfum
Í niðurstöðum evrópsku vinnumarkaðsrannsóknarinnar kemur fram að í fyrra var Ísland það land í Evrópu þar sem hæst hlutfall starfandi fólks var í meira en einu starfi eða alls 10,7 prósent starfandi fólks á aldrinum 20 til 64 ára. Hlutfallið hækkaði milli 2010 og 2016, úr 9,3 prósent að jafnaði í 12,3 prósent. Þá eru konur líklegri en karlar til að vinna tvö eða fleiri störf.
Í skýrslunni segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að fólk vinnur fleiri en eitt starf. Hin augljósa ástæða sé að tekjur fólks nægja ekki fyrir útgjöldum en einnig megi ætla að faglegur áhugi eða aðrar ástæður búi að baki í einhverjum tilfellum.
Tæplega fimmtungur vinnur langar vinnuvikur
Þá er hlutfall fólks sem vinnur langa vinnuviku, sem skilgreind er sem 49 tímar á viku eða meira, hér á landi hátt á meðal Evrópuþjóða. Árið 2018 var Ísland með annað hæsta hlutfall starfandi fólks sem vann langar vinnuvikur að jafnaði, tæp 18 prósent.
Jafnframt er safnað upplýsingum um hve oft fólk vinnur utan hefðbundins vinnutíma eða heiman frá sér í evrópsku vinnumarkaðsrannsókninni. Um er að ræða tvo hópa, í fyrsta lagi fólk sem gerir þetta venjulega( til dæmis vaktavinnufólk á kvöldin) og í öðru lagi fólk sem vinnur stundum eftir vinnu en er annars í hefðbundnu dagvinnustarfi.
Árið 2018 var hlutfall starfandi sem vann stundum á kvöldin það hæsta í Evrópu, 43,5 prósent, og hlutfallið sem vann stundum heima hjá sér það næst hæsta, eða 26,5 prósent.
Í skýrslunni segir að æskilegt væri að fella mælingar á tíðni tilfallandi kvöld- og helgarvinnu og vinnu á heimili saman í mælingu á þessu rofi marka vinnu og heimilislífs.
Safna ætti upplýsingum um hvort að vinna komi niður á einkalífi
Langir vinnutímar og vinnuvikur þrengja að þeim tíma sem fólk hefur til að sinna öðrum hliðum lífs síns, svo sem fjölskyldu, heimilishaldi, félagslegum tengslum og áhugamálum. Í skýrslunni segir að jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé lykilþáttur í velsæld fólks. Hér á landi er hins vegar ekki safnað upplýsingum um samspil vinnu og einkalífs með reglubundnu millibili og telja skýrsluhöfundar fulla ástæða til að huga að bættri gagnaöflun á því sviði.
Það mætti til dæmis gera með því að safna upplýsingum um hversu algengt er að langur vinnutími komi niður á einkalífi eða hversu oft fólk komi of þreytt heim úr vinnu til að sinna þeim verkefnum sem það þarf að sinna á heimilinu. Þá væri mjög til bóta samkvæmt skýrslu höfundum ef evrópska tímarannsóknin (European Time Use Survey) yrði innleidd á Íslandi.