Icelandair Group hefur gert bráðabirgðasamkomulag við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar Boeing 737-MAX vélanna. Upplýsingar um samkomulagið eru trúnaðarmál og viðræður við Boeing munu halda áfram um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. „Eins og fram kom í uppgjöri annars ársfjórðungs hjá Icelandair Group, námu þegar áætluð áhrif vegna kyrrsetningarinnar um 140 milljónum Bandaríkjadala á EBIT afkomu félagsins. Hafa þessi áhrif aukist á undanförnum mánuðum þar sem vélarnar eru enn kyrrsettar. Í dag, að teknu tilliti til þess samkomulags sem nú hefur náðst, metur Icelandair Group tjónið eftir sem áður á um 135 milljónir Bandaríkjadala,“ segir í tilkynningunni.
Eins og áður hefur komið fram hefur Icelandair Group átt í viðræðum við Boeing um að fá allt það tjón bætt sem kyrrsetning MAX vélanna hefur valdið félaginu. Þær viðræður munu sem fyrr segir halda áfram. Afkomuspá Icelandair Group fyrir árið 2019 stendur óbreytt.
Eins og fjallað hefur verið um að undanförnu, meðal annars í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, þá hefur staða Icelandair verið að valda áhyggjum að undanförnu, vegna slæmrar afkomu sem tengist kyrrsetningu á 737 Max vélunum. Gripið var til kyrrsetningarinnar í kjölfar þess að 346 létust - allir um borð - í tveimur flugslysum í Indónesíu og Eþíópíu.
Rannsókn á slysunum stendur enn yfir, og það sama á við um rannsókn á því hvernig staðið var að framleiðslu á Max vélunum hjá Boeing.
Kyrrsetningu hefur ekki verið aflétt, og ekki er vitað hvenær það mun gerast, en reiknað er með að það geti gerst á fyrri hluta næsta árs.
Markaðsvirði Icelandair hefur fallið um 31,7 prósent á þessu ári, og er nú 35,5 milljarðar króna. Í lok annars ársfjórðungs var eigið fé félagsins 53,7 milljarðar.