Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. í Grindavík eru í viðræðum um að sameina fyrirtækin. Ef af verður mun verða til nýr sjávarútvegsrisi á Íslandi, með höfuðstöðvar í Grindavík, sem verður með yfir 16 milljarða króna í veltu á ári, heldur á 44 þúsund tonnum af aflaheimildum og hefur yfir 600 manns í vinnu.
Gangi viðræður um stofnun nýs félags samkvæmt áætlun, má búast við að það taki til starfa um áramót, en þangað til verður rekstur fyrirtækjanna tveggja óbreyttur.
Í tilkynningu vegna þess kemur fram að markmið eigenda félaganna, sem allir yrðu áfram hluthafar, sé að búa til nýtt og kröftugt fyrirtæki.
Vísir og Þorbjörn eru rótgróin og öflug sjávarútvegsfyrirtæki, svipuð að stærð og hafa unnið talsvert saman. Eiga þau meðal annars félög saman á borð við Haustak, Codland og sölufyrirtæki á Grikklandi.