Óhætt er að segja að bændur í Skagafirði, sem eru eigendur Kaupfélags Skagfirðinga og útgerðararms þess, FISK Seafood, hafi hagnast vel á viðskiptum með hlutabréf í Brimi en samanlagt nam hagnaðurinn 1,4 milljarði króna.
Fimm heimamenn í Skagafirði gera þetta að umtalsefni í grein á vefnum Feykir.is, þar sem fjallað er um viðskiptin, og því fagnað hve vel hafi tekist til, ekki síst þar sem Útgerðarfélag Reykjavíkur greiddi FISK Seafood fyrir hlutabréfin með aflaheimildum að miklu leyti. „Fyrir okkur í sveitarfélaginu er aðalatriðið samt að Brim [Útgerðarfélag Reykjavíkur] greiddi ríflega 4,6 milljarða kaupverðsins með rúmlega 2.600 tonna aflaheimildum í þorski, ýsu, ufsa og steinbíti. Það þýðir um 10% aukningu í aflaheimildum FISK Seafood í tonnum og um leið umtalsverða aukningu í umsvifum félagsins hér á heimaslóðunum. Ekki þarf að fjölyrða um beinar og óbeinar tekjur sveitarfélagsins af þeirri viðbót,“ segir í greininni, en höfundar eru Stefán Vagn Stefánsson, Gísli Sigurðsson, Bjarni Jónsson, Ólafur Bjarni Haraldsson, og Sigfús Ingi Sigfússon.
Eftir að KS seldi hlut sinn í Högum hf. keypti dótturfélagið FISK Seafood þann 18. ágúst sl. ríflega 8 prósent hlut í Brimi hf. Strax í kjölfar þeirra viðskipta bætti FISK Seafood við sig um 2 prósent hlutafjár til viðbótar og eignaðist þannig alls 10.18 prósent hlut fyrir ríflega 6,6 milljarða króna.
Þann 8. september seldi FISK Seafood Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem nátengt er eignarhaldi Brims, þessa sömu hluti í félaginu fyrir tæplega átta milljarða króna. Hagnaðurinn var um 1,4 milljarðar króna.
Kaupfélag Skagfirðinga er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og FISK Seafood, útgerðararmur þess, hefur látið verulega til sín taka í íslensku atvinnulífi að undanförnu, eins og var til umfjöllunar í fréttaskýringu á vef Kjarnans, 13. september.
Fjárhagsstaða kaupfélagsins er með nokkrum ólíkindum, sé horft til þess að um hefðbundið kaupfélag er að ræða með dreifðri eignaraðild bænda í Skagafirði sem bakbein.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í 130 ára sögu félagsins. Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins rúmlega 35 milljarðar og heildareignir námu 62,3 milljörðum króna.
Stjórn Kaupfélags Skagfiðinga skipa Bjarni Maronsson stjórnarformaður, Varmahlíð, Herdís Á. Sæmundardóttir varaformaður, Sauðárkróki, Örn Þórarinsson ritari, Ökrum, Guðrún Sighvatsdóttir, Sauðárkróki, Pétur Pétursson, Sauðárkróki, Sigríður Gunnarsdóttir, Sauðárkróki, og Þorleifur Hólmsteinsson, Þorleifsstöðum.