Hátt í 150 þúsund breskir ferðamenn eru strandaglópar eftir að hið 178 ára gamla ferðaþjónustufyrirtæki, Thomas Cook, varð gjaldþrota í kvöld.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC er talið að ráðast þurfi í umfangsmestu fólksflutninga frá seinni heimstyrjöldinni, en 94 flugvélar Thomas Cook hafa þegar verið kyrrsettar, og mun breska flugmálastofnunin (BCAA) þurfa að sjá til þess að öllum verði flogið á leiðarenda, í takt við áætlanir þar um þegar ferðaþjónustufyrirtæki verða gjaldþrota.
Alls tapast 9 þúsund störf við fall félagsins, auk þess sem óbein áhrif eru einnig mikil, og líklegt að tugþúsundir starfa geti tapast þegar öll kurl eru komin til grafar. Alls eru 600 þúsund ferðamenn í þeirri stöðu, að þurfa að breyta sinni ferðaáætlun vegna gjaldþrots Thomas Cook.
Í marga mánuði hefur verið reynt að rétta af rekstur félagsins og þurfti það að fá 200 milljónir punda inn í reksturinn, eða sem nemur um 31 milljarði króna, til að ná honum upp að ásættanlegu marki. Það tókst ekki og því fór félagið í gjaldþrot.
Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, segir í viðtali við BBC að það verði risavaxið verkefni að koma öllum á leiðarenda, og biður ferðamenn sem verða fyrir óþægindum vegna gjaldþrotsins að sýna stillingu og vera samstarfsfús.
Breska ríkið mun leigja þotur til að koma öllum á leiðarenda, og því er kostnaðurinn af fall félagsins umtalsverður fyrir breska skattgreiðendur.
Stærsti hluthafi félagsins var kínverska félagsins Fosun, en samkvæmt BBC hefur félagið sent frá sér tilkynningu, þar sem fall félagsins er harmað.