Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur óskað eftir því við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún feli öðrum að skipa í embætti skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á grundvelli auglýsingar þar um.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans en á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag var fjallað um tillögu til forseta Íslands um að setja staðgengil mennta- og menningarmálaráðherra í tilteknu máli.
Núverandi skólameistari, Ágústa Elín Ingþórsdóttir, hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þeirrar ákvörðunar mennta- og menningarmálaráðherra að auglýsa embættið laust til umsóknar frá og með 1. janúar 2020. Ríkislögmaður fer með málsvörn ríkisins og mun ráðherra ekki tjá sig um málið á meðan á vinnslu þess stendur, samkvæmt svari ráðuneytisins.
Í frétt RÚV í dag kemur fram að Lilja hafi ákveðið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar og hafi fjórir sótt um. Þar á meðal er núverandi skólameistari sem stefndi ríkinu vegna auglýsingarinnar.
Fjórar umsóknir bárust áður en frestur til að skila inn umsóknum er runnin út. Umsækjendur eru þau Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari, Steinunn Inga Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá Félagi framhaldsskólakennara, Steingrímur Benediktsson framhaldsskólakennari og Þorbjörg Ragnarsdóttir aðstoðarskólameistari.