WOW air mun fara sína fyrstu ferð um miðjan október næstkomandi. Ferlið gengur hægar en vonast var til, meðal annars vegna tafa á afhendingu léns og fleiri hluta. Frá þessu greinir mbl.is.
Í fréttinni kemur fram að stíf vinna við endurreisn WOW air standi nú yfir beggja vegna Atlantsála, en meðal þess sem unnið er að þessa dagana sé bókunarvél og vefur nýja félagsins.
Samkvæmt ViðskiptaMogganum er stefnt að því að fljúga jómfrúarflug hins endurreista félags í síðasta lagi um miðjan næsta mánuð. Upphaflega átti að fljúga fyrsta flugið frá Dulles-flugvelli í Washington til Íslands í byrjun október en ekki verður að því.
Fram kom í fréttum í byrjun september að WOW air myndi hefja lágfargjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu í næsta mánuði.
Stærsti hluthafi USAerospace Associates LLC, sem samið hefur um kaup á eignum úr þrotabúi WOW air, er Michele Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michele Ballarin. Hún hafði áður gert tilraun, og náð samningum um, að kaupa eignir WOW air.
Áætlanir nýrra eigenda að WOW air vörumerkinu gera ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á komandi vetur og aukin áhersla verður lögð á þátt vöruflutninga í starfsemi fyrirtækisins.