Icelandair hefur ákveðið að hætta við að færa 111 flugmenn niður í 50 prósent starf, líkt og greint var frá að stæði til um síðustu mánaðarmót, og þess í stað segja upp 87 flugmönnum. Uppsagnirnar taka gildi 1. október næstkomandi. Um er að ræða 16 prósent flugmanna og flugstjóra Icelandair en áfram munu um 460 slíkir starfa hjá félaginu.
Í tilkynningu vegna þess segir að Icelandair vonist til þess að geta boðið flestum þeirra sem sagt verður upp starf aftur næsta vor.
Icleandair og Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hafa einnig undirritað framlengingu á kjarasamningi milli aðilanna sem mun gilda til 30. september 2020, en gildandi samningur átti að renna út í lok þessa árs. Í tilkynningunni segir að nýi samningurinn kveði á að samningsbundin launahækkun, sem taka átti gildi 1. október 2019., frestast til 1. apríl 2020 og að engar aðrar launahækkanir munu eiga sér stað á tímabilinu. „Samhliða þessu var undirrituð viljayfirlýsing sömu aðila um að skipa starfshóp til að útfæra ýmis atriði sem snúa að starfsfyrirkomulagi flugmanna sem miða að því að styrkja samkeppnishæfni Icelandair. Samningurinn fer nú í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum FÍA.“
Óvissan með MAX örlagavaldurinn
Helsta ástæðan fyrir þessari stöðu sem er uppi hjá Icelandair er sú að félagið getur ekki notað Boeing 737 MAX vélar sínar, sem hafa verið kyrrsettar frá því 12. mars, í rekstri sínum. Þær áttu til að mynda að flytja 27 prósent allra farþegar félagsins í sumar en í stað þeirra þurfti að leigja vélar og láta aðrar og eldri vélar, sem hentuðu verr til þess, fljúga ferðir sem þær áttu ekki að fara. Eldri vélarnar nota til að mynda mun meira eldsneyti en MAX vélarnar og eru því kostnaðarsamari í notkun.
Framan af ári var alltaf gert ráð fyrir því að MAX vélarnar yrðu teknar í notkun á þessu ári. Fyrst í sumar, en síðan í október. Í síðasta mánuði var svo greint frá því að Icelandair reiknaði ekki lengur með MAX vélunum á þessu ári.
Félagið tapaði alls 89,4 milljónum dala, um ellefu milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar sagði þó að heildartekjur þess hefðu aukist og launakostnaður lækkað en eldsneytiskostnaður og kostnaður vegna flugvélaleigu hækkað.
Markaðsvirði Icelandair hefur hrunið á undanförnum árum. Það fór yfir 180 milljarða króna í apríl 2016 en er nú rétt rúmlega 35 milljarðar króna, að meðtaldri hlutafjáraukningu upp á 5,6 milljarða króna sem ráðist var í fyrr á þessu ári.