Alls telja um 90 prósent Íslendinga að mikil þörf sé á að stjórnarskráin fjalli um náttúruauðlindir. Þá segjast um 27 prósent vera óánægð með núgildandi stjórnarskrá en um 37 prósent ánægð með hana. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum ítarlegrar könnunar félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf almennings til stjórnarskrárinnar.
Könnunin er hluti af samráði stjórnvalda við almenning um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti í dag á blaðamannafundi fyrir hönd formanna þingflokkanna.
Þjóðareign á náttúruauðlindum tekin fyrir á þessu tímabili
Allir flokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi vinna nú saman að því að endurskoða stjórnarskrána. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs.
Á tímabilinu 2018 til 2021 taka formenn flokkana fyrir þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, kafla stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
Forsætisráðherra kynnti í dag fyrirhugað samráð stjórnvalda við almenning við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar á meðal kynnti hún niðurstöður skoðanakönnunar, sem framkvæmd var í sumar, þar sem könnuð var afstaða kosningabærra Íslendinga til málefna sem varða stjórnarskrána og framtíð lýðræðis á Íslandi.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur meðal annars fram að 37 prósent svarenda segjast vera ánægð með núgildandi stjórnarskrá Íslands, 36 prósent svara hvorki né og 27 prósent segjast vera frekar eða mjög óánægð með stjórnarskránna.
Þá telur mikill meirihluti svarenda að mikil eða frekar mikil þörf sé á að ákvæði um dómstóla í stjórnarskránni séu endurskoðuð. Jafnframt telja 90 prósent svarenda í könnuninni að mikil þörf sé á að ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfismál sé í stjórnarskrá.
Rökræðukönnun í nóvember
Í framhaldi af skoðanakönnun á viðhorfum almennings til stjórnarskrárinnar verður haldin tveggja daga rökræðukönnun þann 9. og 10. nóvember næstkomandi þar sem 300 manns hvaðanæva af landinu verður boðið að taka þátt
Þátttakendur á umræðufundinum verða valdir úr hópi þeirra sem tóku skoðanakönnunina. Á fundinum verður sérstaklega rætt um lýðræði á Íslandi, þar með talið kosningakerfi, kjördæmi og þjóðaratkvæðagreiðslur og kannað verður hvort að viðhorf þátttakenda breytist við nánari kynningu á málinu og umræður.
Þá hefur Háskóli Íslands hefur hleypt af stað umræðuvef í samstarfi við Betra Ísland þar sem almenningi gefst kostur á að koma á framfæri eigin hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar og afla þeim stuðnings. Loks verður samráðsgátt stjórnvalda nýtt áfram til að samráðs um frumvarpsdrög sem koma frá formannahópnum.
Forsætisráðherra bindur miklar vonir við samráðið
„Við höfum í dag kynnt margháttað fyrirhugað samráð við almenning við endurskoðun stjórnarskrárinnar líkt og fyrirheit voru gefin um þegar þessi vinna hófst. Þar á meðal er fyrirhuguð rökræðukönnun í nóvember,“ sagði Katrín þegar hún kynnti samráðið fyrr í dag.
Hún sagðist jafnframt binda miklar vonir við að þessi vandaði og nýstárlegri undirbúningur eigi eftir að geta af sér góðar tillögur um breytingar á stjórnarskrá en veiti stjórnvöldum einnig markverða reynslu við að virkja almenning til þátttöku í opinberri stefnumótun í nútímasamfélagi.