Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir ummæli sín um spillingu í lögreglunni í viðtali við Morgunblaðið fyrir tæpum tveimur vikum síðan hafi meðal annars byggt á því sem fram kom í skýrslu GRECO um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og löggæslu á Íslandi. Ummælin hafi verið oftúlkuð i umræðunni og að hann hefði einungis verið að vísa til ábendinga og viðvarana sem sett voru fram í skýrslunni, auk einstakra mála sem komið hafa upp á undanförnum árum. „Orð mín um spillingu hafa fengið óvænt flug og verið útfærð í þá veru að ég hafi sagt að það sé grasserandi almenn spilling innan lögreglunnar. Það hef ég aldrei sagt, hvorki í þessu viðtali né annars staðar. Þannig að þeir sem halda þessu fram ættu að lesa þetta viðtal.“
Þetta kemur fram í viðtali við Harald í Morgunblaðinu í dag.
Í vikunni lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins og formannafundur Landssambands lögreglumanna yfir vantrausti á Harald. Þeir báru viðtalið í Morgunblaðinu fyrir sig sem lykilástæðu þeirrar ákvörðunar. Í viðtalinu sagði Haraldur meðal annars að verið væri að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann. Þeir sem væru að gera það væru lögreglumenn sem teldu sig eiga harma að hefna gegn honum, meðal annars vegna þess að hann hafi gripið inn í vegna starfshátta eða framkomu þeirra eða vegna þess að þeir hafi ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir. Ef til starfsloka hans kæmi myndi það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.
Þá sagði Haraldur að gagnrýni hans á framgöngu lögreglumanna ætti þátt í því sem hann kallar aðför gegn sér. Hann sagðist hafa bent á að spilling ætti ekki að líðast innan lögreglunnar. „Hluti af umræðunni sem er að brjótast fram núna er kannski einnig vegna þeirrar afstöðu minnar. Ég hef til dæmis bent á að það fari ekki saman að lögreglumenn séu meðfram starfi sínu í pólitísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki saman.“ Umræða um bílamál lögreglunnar væri hluti af þeirri rógsherferð að óreiða sé í fjármálum ríkislögreglustjóra.
Tekið til varna fyrir Harald í leiðaraskrifum
Það er einnig tekið til varna fyrir Harald í leiðara Morgunblaðsins í dag, sem er í aldreifingu líkt og alla fimmtudaga. Í leiðaranum, sem skrifaður er annað hvort af Davíð Oddssyni eða Haraldi Johannessen alnafna ríkislögreglustjóra, að heldur ólíklegt sé að almenningur viti út á hvað upphlaupið gegn ríkislögreglustjóra gengur. „Jafnvel þeir sem fylgjast betur með helstu fréttum en aðrir og fá borgað fyrir það sjá enga glóru. Það hefur ekkertkomið fram í öllum þessum fréttum um að þessi embættismaður hafi brotið af sér. Þeir sem hafa lotið agaviðurlögum af hans hendi neita því ekki að slík tilefni hafi verið fyrir hendi. Og fjarri er því að viðurlögin sýnist hafa verið úr takti við tilefnin. Einu efnisatriðin sem að öðru leyti hafa verið nefnd í umræðunni snúast um búninga og aldur og viðhald bifreiðaflota.“
Leiðarahöfundurinn segir síðan að „hin fámenna hugrakka íslenska lögregla réði úrslitum í „búsáhaldabyltingu“ um að tryggja að múgurinn bryti ekki niður lýðræðislegar stofnanir
þjóðarinnar. Sú hetjudáð lifir í minningunni en jafnframt framkoma nokkurra kjörinna
fulltrúa á Alþingi sem lögðu fjandmönnum lýðræðisins lið gegn lögreglunni.
Íslandi tókst á fyrstu vikunum eftir áfallið að koma sínum málum í farveg sem aðrar þjóðir, sem lentu í samkynja hamförum, fundu ekki eða gátu ekki nýtt vegna þess að þær höfðu
afsalað sér lokaorðinu. Og í framhaldinu skipti mestu að íslenskar hetjur í lögregluliðinu komu í veg fyrir að vel skipulögðum öflum með stuðningi fjársterkra manna sem höfðu sumir verið helstu leikendur í spilinu sem felldi fjárhags landsins, tækist að laska lýðveldið varanlega. Það er sérstaklega minnisstætt og sárt að „öryggistækið RÚV“ ýtti undir sundurlyndi í landinu og hampaði æsingaröflunum. Sú stofnun hefur aldrei beðist afsökunar á fyrirlitlegri framgöngu.“
Davíð Oddsson, annar ritstjóra Morgunblaðsins, var seðlabankastjóra á þeim fyrstu vikum sem vikið er að í leiðaranum, og sagðar eru hafa bjargað landinu fyrir horn. Hann missti það starf snemma árs 2009.
Mál Haraldar til skoðunar í ráðuneytinu
Mál ríkislögreglustjóra er nú til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu og hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra málaflokksins, gefið sér nokkrar vikur til að finna lausn á því. Ein lausn væri að ráðast í skipulagsbreytingar innan lögreglunnar og færa t.d. starfsemi ríkislögreglustjóra undir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Enn sem komið er mun Haraldur hins vegar sitja áfram í starfi.
Í gær var svo greint frá því að Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis, hefði sent bréf til dómsmálaráðuneytisins og spurt hvers vegna Haraldur Johannessen hafi ekki verið áminntur þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf, sem höfðu fjallað um starfsemi ríkislögreglustjóra og persónu Haraldar, en bréf hans var skrifað á bréfsefni ríkislögreglustjóra.
Dómsmálaráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að framganga Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, hefði verið ámælisverð þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf til að andmæla umfjöllun á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.