Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta frá og með deginum í dag greitt fyrir að jafna kolefnisfótspor sitt við bókun flugmiða. Reiknað er út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna við flug til áfangastaða félagsins og farþegum er síðan boðið að planta ákveðið mörgum trjám til að kolefnisjafna hvert flug. Losun frá flugsamgöngum innan íslenska hagkerfisins hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og er losun ársins 2018 áætluð um 2.781 kílótonn af CO2 ígildum.
Þrjú tré fyrir ferð til Amsterdam
Icelandair og Air Iceland Connect hafa í samstarfi við Klappir grænar lausnir reiknað út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna við flug til allra áfangastaða félaganna. Til að mynda er kolefnisfótspor einstaklings sem flýgur báðar leiðir frá Reykjavík til Amsterdam í almennu farrými 0,3 tonn og er farþega því boðið að planta þremur trjám fyrir 639 krónur til kolefnisjafna flugið. Til samanburðar er kolefnisfótspor einstaklings sem flýgur til og frá borginni Seattle í Bandaríkjunum 0,9 tonn og farþega því boðið að planta níu trjám fyrir 1.824 krónur.
Viðbótargreiðsla farþega mun renna óskert til Kolviðar sem er kolefnissjóður sem stofnaður var af Skógaræktarfélagi Íslands og Landvernd. Sjóðurinn fjármagnar aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu, skógrækt og öðrum leiðum sem draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda.
Í fréttatilkynningu frá Icelandair Group kemur fram að félagið hafi gripið til ýmissa aðgerða á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum. Vélum fyrirtækisins hefur til dæmis verið breytt með ásetningu svokallaðra vængugga (e. winglets) sem draga úr loftmótstöðu og spara þannig eldsneyti. Einnig hefur félagið innleitt verklag og ýmsar aðferðir til að lágmarka eldsneytisnotkun, svo sem við aðflug og lendingu og með innleiðingu eldsneytisvöktunar til að draga úr losun. [adspott]
„Neytendur eru meðvitaðir um eigin kolefnisfótspor og það er ánægjulegt að koma til móts við farþega okkar sem vilja jafna kolefnislosun sína vegna flugferða. Þetta er mikilvægt skref og í samræmi við stefnu félagsins. Þá geta viðskiptavinir Icelandair Cargo nú þegar jafnað kolefnislosun sína sem myndast vegna flutninga með félaginu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Losunin aukist um 2000 kílótonn síðan 2010
Flugsamgöngur eru áfram ábyrgar fyrir með mestu losuninni frá hagkerfi Íslands árið 2018 eða um 2.781 kílótonn af hitunargildum (CO2 ígildi). Losun hitunargilda frá flugsamgöngum innan íslenska hagkerfisins hefur aukist gríðarlega á síðustu árum.
Árið 2010 var losun frá flugsamgöngum 770,6 kílótonn af hitunargildum en losunin í fyrra er áætluð 2781 kílótonn. Losunin hefur því aukist um rúmlega 2000 kílótonn á átta árum. Þetta kemur fram í losunarbókhaldi gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands sem Hagstofan heldur utan um.