Stjórnarandstaðan á breska þinginu íhugar nú að leggja fram vantrausttillögu á Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, en ef að yrði kæmi hún fram í næstu viku.
Ástæðan fyrir mögulegu vantrausti er tvíþætt. Annars vegar dómur Hæstaréttar Bretlands, þar sem allir ellefu dómarar dómsins dæmdu ákvörðun Johnson um að stöðva breska þingið í fimm vikur ólöglega, og annars vegar andstaðan í þinginu við að Bretland gangi úr Evrópusambandinu 31. október án samnings.
Líklegt þykir að seðlabanki Bretlands - Englandsbanki - lækki vexti á næstunni, ef það fer svo að breska þingið nær ekki saman um samning við Evrópusambandið, áður en kemur að 31. október þegar Bretlands á að fara úr sambandinu. Boris Johnson hefur sagt að hann og hans stjórn hafi það verkefni eitt, að uppfylla vilja meirihluta kjósenda um að Bretland yfirgefi Evrópusambandið.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því á vef sínum í dag, að vextir gætu fljótt farið að lækka, en þeir hafa verið í 0,75 prósent frá því í ágúst í fyrra. Aðgerðin yrði þá notuð til að liðka fyrir efnahagsviðspyrnu, að því er segir á vef BBC.
Eins og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu, sem birtist á vef Kjarnans í júní, þá hefur Ísland mikla hagsmuni af því að viðskipti gangi greiðlega fyrir sig, og að kaupmáttur í Bretlandi haldist uppi, þegar kemur til þess að Bretland gangi úr Evrópusambandinu.
Seðlabanki Íslands hefur fjallað ítarlega um mögulega áhættu vegna Brexit, í peningamálum. Bretland er næst stærsta viðskiptaland Íslands á eftir Bandaríkjunum, sé tekið tillit til bæði vöru- og þjónustuviðskipta.