Bókfært tap TM vegna slæmrar stöðu fasteignasjóðs á vegum GAMMA, Gamma Novus, nemur um 300 milljónum króna. Í tilkynningu félagsins til kauphallar, er getið um tap af fjárfestingum, sem meðal annars á rekja til endurmats á eignum fasteignafélags á vegum GAMMA, sem er í eigu Kviku.
„Samkvæmt fyrirliggjandi tölum er ljóst að ávöxtun af verðbréfaeign félagsins verður talsvert verri en spá fyrir 3. ársfjórðung gerir ráð fyrir. Spáin gerir ráð fyrir að fjárfestingatekjur og aðrar tekjur muni nema 215 m.kr. Miðað við núverandi raunstöðu verða fjárfestingatekjur og aðrar tekjur neikvæðar á 3. ársfjórðungi á bilinu 225-275 m.kr. Lang stærsti hluti fráviksins skýrist af óvæntri og verulegri niðurfærslu á gengi fasteignasjóðs, en einnig er verri afkoma af hlutabréfum og hlutabréfasjóðum sem skýrist af lækkunum á markaði frá því að spáin var gefin út. Þar sem fjórðungurinn er ekki á enda þá er enn nokkur óvissa í framangreindum tölum,“ segir í tilkynningu félagsins.
Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, það vera „með ólíkindum“ hvernig stöðunni hjá fasteignasjóðnum hafi verið klúðrað. Hann segist hafa frétt af stöðu mála með símtali í gær.
„Við erum að afskrifa rúmlega 300 milljónir út af þessum sjóði, sem var í innlendum íbúðafjárfestingum. Það er með ólíkindum að menn hafi klúðrað þessu, en ég fæ bara þessar fréttir í símtali í gær. Eins og þetta var kynnt fyrir mér eru þarna margir samverkandi þættir á bakvið bæði kostnaðarhækkanir þar sem byggingarkostnaðurinn var miklu hærri en menn ætlu sér og svo tekur lengri tíma að selja. Loks eru verkefnin ekki komin jafnlangt og menn héldu,“ segir Sigurður í viðtali við Viðskiptablaðið.
Sjóvá hefur þegar bókfært 155 milljóna króna tap vegna sama sjóðs, en lífeyrissjóðir voru meðal stórra fjárfesta í honum.
Samkvæmt ársuppgjöri ársins 2018 var eigið fé fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus metið á 4,4 milljarða króna. Eftir nýlegt endurmat á eignum sjóðsins er eigið fé hans hins vegar áætlað 42 milljónir króna, eins og Kjarninn greindi frá í dag.
Það var því ofmetið um rúmlega 4,3 milljarða króna um síðustu áramót. Um mitt ár í fyrra voru eignir umfram skuldir metnar á rúmlega 4,8 milljarða króna.
Í einblöðungi sem sendur var út vegna stöðu sjóðsins um síðustu áramót, þegar eigið fé Novus var sagt 4,4 milljarðar króna, sagði: „Góð ávöxtun sjóðsins á rætur að rekja til vel tímasettra fjárfestinga og ágætrar framvindu í þróun, framkvæmdum og sölu á vegum sjóðsins. Helsta ástæða þess að gengi sjóðsins hefur gefið eftir á sl. 12 mánuðum er sú að uppfærsla kostnaðaráætlana hefur leitt í ljós að byggingarkostnaður var vanmetin í fyrri áætlunum, en einnig hafa horfur um raunhækkun fasteignaverðs að mati greiningadeilda lækkað sem lækkar áætlaðan hagnað í hverju verkefni fyrir sig. Verkefnin eru enn hagkvæm þótt áætlaður hagnaður þeirra sé lægri en gert var ráð fyrir í upphafi árs 2018.“
Í einblöðungnum sem sendur var út í dag er hins vegar birt allt önnur og mun verri staða. Eigið fé Novus hefur nánast þurrkast út eftir endurmat. Þar kemur fram að breytingar á stöðu sjóðsins skýrist af mörgum þáttum. Meðal annars hafi raunveruleg framvinda tiltekinna verkefna verið ofmetin. „Þá hefur framkvæmdakostnaður verið talsvert yfir áætlunum á árinu. Fyrri matsaðferðir tóku ekki að fullu tillit til fjármagnskostnaðar félagsins auk þess sem hann hækkaði verulega með útgáfu skuldabréfs (UPPH21 0530) í vor. Væntingar um söluverð íbúða og þróunareigna hafa einnig verið endurmetnar.“