Icelandair hefur ákveðið að hætta áætlunarflugi til San Franciso og Kansas City í Bandaríkjunum, en um leið eru nýir áfangastaðir til skoðunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Árleg endurskoðun á flugáætlun Icelandair fyrir sumarið 2020 stendur nú yfir. Meginmarkmið þeirrar vinnu er að bæta afkomu leiðakerfisins og lágmarka áhættu félagsins vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvéla. Til skoðunar er að bæta við nýjum áfangastöðum við leiðakerfið en þegar hefur verið tekin ákvörðun um að hætta áætlunarflugi til San Francisco og Kansas City í Bandaríkjunum. Afkoma af þessum flugleiðum hefur ekki staðið undir væntingum. Ein af fjórum Boeing 767 breiðþotum félagsins hefur verið notuð fyrir flug til San Fransisco og verður hún nýtt með arðbærari hætti í leiðakerfinu eftir þessa breytingu,“ segir í tilkynningunni.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur sagt að félagið sé nú að róa öllum árum að því marki, að lágmarka skaðleg áhrif af kyrrsetningunni á 737 Max vélunum, en ekki liggur fyrir hvenær henni verður aflétt. Reiknað er með því að það verði í byrjun næsta árs.
Markaðsvirði félagsins er nú tæplega 35 milljarðar, en gengi bréfa félagsins lækkaði lítið eitt í dag, eða um 0,47 prósent.