Tveir fagfjárfestasjóðir í rekstri GAMMA, Novus og Anglia, eru í umtalsvert verra ásigkomulagi en gert hafði verið ráð fyrir. Skráð gengi þeirra hefur verið lækkað sem því nemur.
Í tilkynningu frá Kviku banka, sem eignaðist GAMMA í mars á þessu ári, kemur fram að lækkun á gengi sjóðanna muni ekki hafa áhrif á áætlaða afkomu Kviku á árinu 2019. Enn er áætlað að afkoman verði jákvæð um 2,9 milljarða króna fyrir skatta líkt og greint var frá í afkomuspá sem birt var samhliða hálfsársuppgjöri bankans.
Anglia-sjóðurinn var stofnaður sumarið 2017. Um var að ræða fimm milljarða króna fasteignasjóð í London sem átti að fjárfesta í hinum ýmsu verkefnum. Í frétt Viðskiptablaðsins frá þeim tíma var haft eftir Gísla Haukssyni, þáverandi stjórnarformanni og forstjóra GAMMA, að frábær tímapunktur væri fyrir Íslendinga til að fjárfesta erlendis. Ákveðið hefði verið að setja sjóðinn á laggirnar í kjölfar frétta um afléttingu hafta á Íslandi. Þeir sem settu fé í sjóðinn voru íslenskir fjárfestar.
Novus er fasteignasjóður sem á meðal annars Upphaf fasteignafélag. Helstu fjárfestar í honum eru íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar.
Fengu lán hjá Stoðum
Kvika banki keypti allt hlutafé í GAMMA Capital Management seint á síðasta ári. Kaupin höfðu verið í deiglunni í töluverðan tíma en erfiðlega gekk að klára þau, meðal annars vegna þess að virði GAMMA var á reiki. Upphaflega var greint frá því, í júní í fyrra, að kaupverðið ætti að vera tæplega 3,8 milljarðar króna. Þegar gengið var frá kaupunum hafði það lækkað niður í 2,4 milljarða króna.
Fyrir lá að staða sjóða GAMMA var ekki góð á þessum tíma. Í Fréttablaðinu í sumar var greint frá því að fjárfestingafélagið Stoðir hefði lánað GAMMA einn milljarð króna haustið 2018, þegar kaup Kviku voru yfirvofandi. Lánið var veitt til að bæta lausafjárstöðu GAMMA, sem var þá mjög döpur. Stoðir fengu 150 milljónir króna í þóknun fyrir að veita lánið sem var að fullu greitt upp í byrjun mars 2019.
Sameina eigna- og sjóðsstýringu
Í byrjun september var greint frá því að stjórn Kviku hefði ákveðið að sameina alla eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðunnar. Auk eignastýringar Kviku var þar um að ræða rekstrarfélögin GAMMA Capital Management hf. og Júpíter rekstrarfélag hf.
Með sameiningunni verður sameinað dótturfélag Kviku stærsta eigna-og sjóðastýringarfyrirtæki landsins með 45 starfsmenn og heildareignir yfir 440 milljarða króna í stýringu. Í þeirri vinnu þurfti að fara vel yfir sjóðina og það hefur skilað því að áðurnefndir tveir sjóðir GAMMA hafa verið lækkaðir í virði þar sem þeir reyndust súrari en búist hafði verið við.