Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, segist sjá fram á að endataflið sér framundan, varðandi kyrrsetninguna á 737 Max vélum félagsins, og að þær munu komast loftið til að þjóna hlutverki sínu í farþegaflugi innan tíðar.
Þetta kemur fram í viðtali Seattle Times við Muilenburg, en megin framleiðslustarfsemi Boeing er í Renton á Seattle svæðinu, og er fyrirtækið stærsti vinnuveitandinn á svæðinu með 80 þúsund starfsmenn.
Eins og mikið hefur verið fjallað um undanfarna mánuði þá hafa 737 Max vélarnar frá Boeing verið kyrrsettar um allan heim, eftir að tvær vélar af þeirri tegund fórust í Indónesíu og Eþíópíu, með þeim afleiðingum að 346 - allir um borð - létu lífið. Fyrra slysið var 29. október í fyrra en hið síðara 13. mars síðastliðinn.
Frá því seint í mars hefur verið í gildi alþjóðleg kyrrsetning á vélunum, á meðan rannsakað er hvað olli slysunum og hvort einhverjir gallar hafi verið í vélunum.
Nú þegar hefur verið staðfest að gallar voru í svonefndu MCAS kerfi sem vinnur gegn ofrisi. Þá hefur öll framleiðslulína Boeing verið uppfærð, og eru nú í gangi lokayfirferðir á helstu framleiðsluþáttum, að því er fram kemu í viðtalinu við Muilenburg.
Fyrirtækið leggur nú kapp á að ljúka síðustu verkþáttum og fá grænt ljós frá flugmálayfirvöldum - bæði í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum - áður en kyrrsetningu verður aflétt. Ekkert liggur þó fyrir um það enn, og Boeing mun þurfa að fá samþykki frá flugmálayfirvöldum víða um heim áður vélarnar fara aftur í loftð.
Icelandair er eitt þeirra flugfélaga sem á mikið undir því að kyrrsetningunni verði aflétt. Félagið reiknar með að kyrrsetningunni verði aflétt í byrjun næsta árs, og þá geti félagið byrjað að fljúga farþegum með þeim.
Markaðsvirði Boeing er nú 214 milljarðar Bandaríkjadala, en félagið hefur í gegnum tíðina verið eitt stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna.