Nýtt samnorrænt tölvuleikjafyrirtæki var kynnt í dag sem ber nafnið Mainframe Industries en það er með starfsemi í Helsinki og Reykjavík. Fyrirtækið er stofnað af þrettán reynslumiklum einstaklingum úr tölvuleikjaiðnaðinum sem hafa meðal annars komið að leikjum á borð við EVE Online, Alan Wake and The Walking Dead: No Man’s Land. Markmið fyrirtækisins er að skapa fyrsta opna fjölnotendaheiminn sem byggður er frá grunni til að spilast í skýi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Stofnendur Mainframe Industries eru Börkur Eiríksson, Kjartan Pierre Emilsson, Þorsteinn Högni Gunnarsson, Fridrik Haraldsson, Reynir Harðarson, Sulka Haro, Kristján Valur Jónsson, Jyrki Korpi-Anttila, Saku Lehtinen, Ansu Lönnberg, Eetu Martola, Vigfús Ómarsson og Jón Helgi Þórarinsson.
Þorsteinn Gunnarsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Mainframe, segir við tilefnið að viðskiptatækifærin og möguleikar til sköpunar, sem spilun í skýinu bjóði upp á fyrir fjölnotendaleiki, séu langt umfram það sem menn geta upplifað á skjáum sínum í dag. „Við erum ótrúlega spennt að afhjúpa þessa samnorrænu brú sem tengir saman stofnendateymi með þá reynslu frá AAA, MMO og farsímaleikjum sem þarf til að hanna þann leik sem okkur hefur dreymt um að gera alla okkar ævi.”
Ný tækifæri fyrir leikjahönnuði
Í tilkynningunni segir enn fremur að spilun í skýinu leyfi aðgang að leik frá tækjum af ýmsum gerðum og stærðum, allt frá hröðum 5G farsímanetum, PC leikjatölvum og sjónvörpum. Það sé sannfæring Mainframe að þessi samgangur samfélagsmiðla og leikja yfir skýið og niður á þau tæki sem henta hverjum og einum muni bjóða upp á ótal ný tækifæri fyrir leikjahönnuði.
„Möguleikinn fyrir Mainframe að geta boðið upp á sömu gæði upplifunar á hverskyns farsímum og sjónvarpstækjum, sem einungis var áður hægt að ná á öflugum PC leikjavélum, þýðir að við getum hannað vissa hluta af leiknum í skýinu sem krefjast meiri reikniafls og umfangs líkt og flókin eðlisfræði- og gervigreindarlíkön. Þannig er hægt að bjóða upp á upplifun sem er ekki skorðuð við það tæki sem notað er til að nálgast hana,“ segir Þorsteinn.
5G mun leiða til enn nýrrar byltingar í leikjaiðnaðinum
Mainframe tilkynnir jafnframt 2 milljóna evru fjármögnun frá tækni- og leikjasjóðum eins og Maki.vc, Play Ventures, Crowberry Capital og Sisu Game Ventures. Í framhaldi af því hafa Harri Manninen og Hekla Arnardóttir tekið í sæti í stjórn og Samuli Syvähuoko skipaður stjórnarformaður.
Ilkka Kivimäki, stofnandi hjá Maki.vc, segir að þau séu sannfærð um að 5G muni leiða til enn nýrrar byltingar í leikjaiðnaðinum þar sem spilarar geti nálgast leiki auðveldlega og spilað með lágum viðbragðstíma, sem muni hagnast þeim í auknu aðgengi, deilimöguleikum og auknu framboði. „Norðurlöndin hafa áður sýnt og sannað styrk sinn í leikjagerð og við teljum að sterkt samnorrænt stofnendateymi Mainframe sé í lykilstöðu til að nýta sér þessa nýju möguleika.”
Leikir endurskilgreindir
Samuli Syvähuoko, meðstofnandi hjá Sisu Game Ventures, greinir frá því að það sem hafi dregið hann að þessu ævintýri sé sú botnlausa ástríða hjá teyminu til að víkka út sjóndeildarhringinn og endurskilgreina hvað „við köllum leiki.“
„Önnur umbylting sem mig langar að verða vitni af með Mainframe er hvernig hin hefðbundna leið að laða inn notendur muni gjörbreytast með spilun í skýinu, þar sem hver auglýsing sem þú sérð er í raun leikurinn sjálfur, tilbúinn til spilunar þá og þegar,” segir Syvähuoko að lokum.