„Það er alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að hafa auga með öllum hræringum á þessum vettvangi í ljósi hagsmuna Íslands. Engum öðrum er það skylt.“ Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps utanríkisráðherra um EES-samninginn sem birt var í dag.
Í skýrslunni segir að stjórnmálamenn, ráðherrar og alþingismenn, verði að láta sig EES-málefni meiru varða. Starfshópurinn leggur til að komið verði á fót stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar sem fylgist með öllu er varðar málaflokkinn.
Þrettán þingmenn óskuðu eftir skýrslunni
Í apríl 2018 óskuðu þrettán þingmenn eftir skýrslu frá utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og þau áhrif sem EES-samningurinn hefði haft hér á landi. Í kjölfarið skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, starfshóp sem hefur nú skilað skýrslu um EES-samninginn. Starfshópinn skipuðu þau Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra, og lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir.
Í skýrslunni segir að allir viðmælendur starfshópsins, að undanskildum fulltrúum íslensku samtakanna Frjálst land og norsku samtakanna Nei til EU, telji að EES-samningurinn lifa góðu lífi og að hann sé til verulegs gagns og ávinnings fyrir þá sem innan ramma hans starfa.
Íslenskt hagkerfi stækkað og lífskjör batnað
Í skýrslu starfshópsins segir að með aðildinni að EES, þann 1. janúar 1994, hafi þjóðin verið endanlega leyst úr efnahagslegum fjötrum og í dag sé hagrænn bati Íslands af aðildinni mikill. Evrópska efnahagssvæðið er um þessar mundir langmikilvægasti markaður Íslands. Þangað fór um 77 prósent vöruútflutnings árið 2018 og frá ríkjum ESB og EES/EFTA- ríkjanna kemur um 61 prósent vöruinnflutnings til Íslands.
Þá teygi bein og óbein áhrif samningsins sig inn á öll svið samfélagsins jafnt hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Til að mynda hafi tugþúsundir Íslendinga nýtt sér réttinn sem EES-aðildin veitti þeim meðal annars til afla sér menntunar eða leita sér lækninga í öðrum löndum.
Alls hafa um 40.000 Íslendingar notið þess sem í boði undir evrópskri samstarfsáætlun í menntamálum, Erasmus+. Þá hafa verið gefin út hundruð þúsunda evrópskra sjúkratryggingakorta til Íslendinga í áranna rás, þar af um 150 þúsund á árunum 2016, 2017 og 2018.
Ennfremur hafi einstaklingar notið góðs af þeim kröfum sem kveðið er á um í samnignum um persónuvernd, umhverfismál, félagsmál og neytendamál.
Laumi inn íþyngjandi heimasmíðuðum ákvæðum
Í skýrslunni segir að þótt kostir sameiginlega markaðarins séu ótvíræðir kunni kröfurnar um einsleitni og aðild að honum einnig að vera íþyngjandi. Gallar við aðildina snúi að því sama og almennt sætir gagnrýni í Evrópu, að með þungu skrifræði og eftirlitskerfi seilist embættismenn án lýðræðislegs umboðs til meiri valda en góðu hófi gegni.
Í umræðum á Alþingi og almennum reglum á vettvangi stjórnsýslunnar er lögð áhersla á að við innleiðingu EES-gerða eigi ekki að ganga lengra en þær krefjast við að íþyngja þeim sem gert er að starfa eftir reglunum. Samkvæmt skýrslunni er þó pottur brotinn í þessum efnum og er það gjarnan kallað „gullhúðun“ þegar stjórnvöld einstakra ríkja herða á íþyngjandi reglum EES-gerða til að ná fram sérgreindum markmiðum á heimavelli.
Fulltrúar iðnaðar og atvinnulífs hér á landi hafa meðal annars gagnrýnt innleiðingu EES-reglna með þeim rökum að íslensk stjórnvöld „laumi“ í EES-frumvörp íþyngjandi heimasmíðuðum ákvæðum.
Tekið er þó fram í skýrslunni að skyldur vegna aðildarinnar vegi ekki þyngra en ávinningurinn sé lögð rækt við þau tækifæri sem eru fyrir hendi til gæslu sérgreindra hagsmuna. Bent er hins vegar á í skýrslunni að í þessum efnum gerist þó ekkert af sjálfu sér heldur megi rekja þróunina til þess að kjörnir fulltrúar og stjórnvöld í hverju landi snúist ekki gegn henni af nægilegum þunga.
Ábyrgð stjórnvalda að hafa augu með hræringum í Evrópusambandinu
Í skýrslunni eru teknar saman um upplýsingar um þáttöku Íslands í sérfræðingahópum og lagasetningarnefndum Evrópusambandsins. Íslendingar hafa rétt til að sækja fundi í samtals 649 mismunandi hópum og nefndum. Sérfræðingahóparnir eru 465 og lagasetningarnefndirnar 184
Bráðabirgðaniðurstöður í september 2019 sýna hins vegar að Ísland tekur þátt, reglulega eða eftir atvikum, í 64 lagasetningarnefndum af 184 eða í tæplega 35 prósent og í 181 sérfræðingahópi af 465 eða um 39 prósent.
„Það er alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að hafa auga með öllum hræringum á þessum vettvangi í ljósi hagsmuna Íslands. Engum öðrum er það skylt,“ segir í skýrslunni
Stór hluti samningsins innanríkismál
Að lokum telur starfshópurinn upp fimmtán atriði um úrbætur hér á landi er varða EES-samninginn. Þar á meðal telur hópurinn að binda verði enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána. Samkvæmt starfshópnum veikir vafi um að stjórnarskrá Íslands heimili fulla aðild að EES-samstarfinu stöðu Íslendinga gagnvart samstarfsríkjum, einkum Noregi og Liechtenstein
Þá tekur starfshópurinn það fram að viðurkenna skal í verki að samningurinn móti allt þjóðlífið en ekki megi skilgreina hann sem erlenda ásælni. Raunar verði að viðurkenna að stór hluti EES-samstarfsins sé alfarið innanríkismál.
Stjórnstöð EES-mála verði sett á fót
Skýrsluhöfundar telja því að leggja beri grunn að meiri festu í allri stjórn og meðferð EES-mála hér á landi. Að komið verði á fóti stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar með föstu starfsliði sem fylgist viðvarandi með öllu er varðar málaflokkinn á mótunar- og framkvæmdarstigi. Með því verði málefnunum gert hærra undir höfuð innan ráðuneyta með þjálfuðu starfsfólki og töku ákvarðana á pólitískum forsendum.
„Reynslan sýnir að með málefnalegri eftirfylgni ná EES/EFTA-ríkin verulegum árangri í þágu hagsmuna sinna,“ segir í skýrslunni.