Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur vikið sæti í máli er varðar kæru Landverndar á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að taka ekki til ákvörðunar hvort fyrirhuguð stækkun á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit skuli sæta umhverfismati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Tillaga til forseta Íslands um að setja staðgengil í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra í málinu var rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verður settur umhverfis- og auðlindaráðherra þegar málið verður tekið til meðferðar og ákvörðun tekin, samkvæmt svari ráðuneytisins. Svandís var umhverfisráðherra á árunum 2009 til 2013.
„Umhverfis- og auðlindaráðherra vék sæti í málinu þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra Landverndar á þeim tíma er kæra Landverndar barst umhverfis- og auðlindaráðuneytinu,“ segir enn fremur í svarinu.
Guðmundur Ingi var framkvæmdastjóri Landverndar á árinum 2011 til 2017 eða þangað til hann tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra.