Stjórn GAMMA segist líta á þá stöðu sem kom í ljós við endurmat nýs stjórnendateymis fyrirtækisins á sjóði í stýringu þess, Novus, mjög alvarlegum augum. „Eftir að raunstaða Novus og Upphafs kom í ljós var Fjármálaeftirlitið upplýst um stöðu sjóðsins og í framhaldi fjárfestar og skuldabréfaeigendur með sérstöku upplýsingablaði.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA sem send var út í dag.
Þá hefur stjórnin ráðið Grant Thornton sem óháða sérfræðinga til þess að fara yfir málefni Novus og Upphafs. „Á grundvelli niðurstöðu úttektar þeirra verður lagt mat á hvaða frekari aðgerða verður gripið til að upplýsa um málið. Jafnframt munu stjórnendur vinna með haghöfum að frekari upplýsingaöflun og verður fundur eigenda sjóðsins boðaður innan skamms.“
Nánast ekkert eigið fé eftir
Samkvæmt ársuppgjöri ársins 2018 var eigið fé fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus metið á 4,4 milljarða króna. Eftir nýlegt endurmat á eignum sjóðsins er eigið fé hans hins vegar áætlað 42 milljónir króna. Það var því ofmetið um rúmlega 4,3 milljarða króna um síðustu áramót.
Helsta eign sjóðsins er Upphaf fasteignafélag slhf. og í einblöðungi sem nýverið var sendur á þá sem fjárfestu í sjóðnum kom fram að undanfarið hafi nýtt teymi sérfræðinga, auk utanaðkomandi ráðgjafa, unnið að málefnum sjóðsins. Upphaf stendur fyrir byggingu á nokkur hundruð íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
Í einblöðungnum kom einnig fram að breytingar á stöðu sjóðsins skýrist af mörgum þáttum. Meðal annars hafi raunveruleg framvinda tiltekinna verkefna verið ofmetin. „Þá hefur framkvæmdakostnaður verið talsvert yfir áætlunum á árinu. Fyrri matsaðferðir tóku ekki að fullu tillit til fjármagnskostnaðar félagsins auk þess sem hann hækkaði verulega með útgáfu skuldabréfs (UPPH21 0530) í vor. Væntingar um söluverð íbúða og þróunareigna hafa einnig verið endurmetnar.“
Skuldabréf seld í sumar
Í júní var skuldabréfaútboð sem tryggði sjóðnum 2,7 milljarða króna klárað. Margir sem að því komu telja að það hafi farið fram á blekkingargrundvelli, enda var eigið fé GAMMA: Novus þá sagt vera tæplega fjórir milljarðar króna. Reyndar gekk alls ekki vel að selja útgáfuna til að byrja með. Viðmælendur Kjarnans úr fjármálageiranum segja að það hafi þurft að hækka vextina verulega til að því. Á endanum urðu þeir að lágmarki 15 prósent og áttu að greiðast í einni greiðslu með höfuðstólnum þann 30. maí 2021.
Útgáfudagur skuldabréfaflokksins var 5. júní 2019.
Skuldabréfin voru seld með veði í fjölmörgum eignum, meðal annars öllu hlutafé í Upphafi fasteignafélagi, Upphafi fasteignum og fjórum öðrum félögum. Auk þess voru ýmsar fjárkröfum settar að veði og hlutdeildarskírteini í eigu Upphafs í Almenna leigufélaginu eignarhaldssjóði.