Rauður dagur lækkunar var í kauphöll Íslands í dag, fyrir utan að markaðsvirði Origo hækkaði um 1,8 prósent í viðskiptum upp á 677 þúsund krónur, eða sem nemur rúmlega meðalmánaðarlaunum Íslendings.
Skörp lækkun var á markaðsvirði Arion banka, og nam hún 2,5 prósentum þegar markaðir lokuðu. Markaðsvirði félagsins er nú rúmlega 132 milljarðar króna, en eigið fé bankans var 195 milljarðar króna um mitt þetta ár.
Bankinn sendi frá sér afkomuviðvörun í gær, eftir að hafa niðurfært eignir.
Verðið er því um 0,69 sinnum eigið fé, en til samanburðar þá seldi íslenska ríkið 13 prósent eignarhlut sinn í bankanum á verð sem var um 0,8 sinnum eigið fé bankans á þeim tíma.
Markaðsvirði Kviku banka lækkaði einnig þó nokkuð, eða um 2,8 prósent. Markaðsvirði þess banka er 17,3 milljarðar króna, en virði bankans hefur lækkað um tæplega 10 prósent á undanförnum mánuði.
Að meðaltali lækkaði vísitala kauphallarinnar um tæplega eitt prósent.
Markaðsvirði Icelandair hélt áfram að falla, og lækkaði um rúmlega tvö prósent, en það hefur lækkað um 40 prósent á einu ári. Markaðsvirði félagsins er nú tæplega 32 milljarðar. Til samanburðar var eigið fé félagsins um 55 milljarðar um mitt þetta ár, og er markaðsvirði félagsins því komið niður í 0,58 sinnum eigið fé.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga stóran hluta af skráðum verðbréfum, eða um fimmtíu prósent. Heildareignir þeirra í ágúst námu 4.800 milljörðum króna og þar af voru eignir í útlánum og innlendum verðbréfum - hluta- og skuldabréfum - 3.100 milljarðar króna, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands.