Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að nýr samningur um Brexit væri í höfn. Samningurinn verður borinn undir breska þingið á laugardag og hvetur Johnson ráðherra til að samþykkja hann.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, staðfestir að samningur sé í höfn á Twitter og segir hann vilja beggja aðila til að semja hafa skilað sér. Þá segir hann samninginn sanngjarnan og að tekið hafi verið tillit til óska Bretlands jafnt sem Evrópu. Juncker segist jafnframt ætla hvetja leiðtogaráð Evrópusambandsins til að taka vel í samninginn.
🇪🇺🤝🇬🇧 Where there is a will, there is a #deal - we have one! It’s a fair and balanced agreement for the EU and the UK and it is testament to our commitment to find solutions. I recommend that #EUCO endorses this deal. pic.twitter.com/7AfKyCZ6k9
— Jean-Claude Juncker (@JunckerEU) October 17, 2019
Lýðræðislegi sambandsflokkurinn á Norður-Írlandi, DUP, sem stutt hefur stjórn breska Íhaldsflokksins á þinginu lýsti því yfir í morgun að flokkurinn væri andvígur nýjum samningi Johnson. Helsta ágreiningarefnið í viðræðunum hefur snúið að málefnum Norður-Írlands og staða svæðisins eftir Brexit.
Þá hefur Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hvatt breska þingið til að hafna samningnum. Hann segir samninginn ekki vera til þess fallinn að sameina bresku þjóðina, sem eigi að fá að tjá hug sinn í atkvæðagreiðslu.
Breska þingið hefur verið kallað til fundar á laugardag en þá þarf Johnson að fá breska þingið til að samþykkja hann. Bæði breska þingið og þing aðildarríkja þurfa þó að staðfesta samninginn áður en hann öðlast gildi.