Seðlabanki Íslands var í morgun dæmdur til að afhenda Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, upplýsingar um samning sem Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Dæmt var um þetta í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.
Ari sendi fyrirspurn á Seðlabankinn í nóvember á síðasta ári. Fyrirspurnin snerist um að fá upplýsingar um samning sem bankinn hafði gert við Ingibjörgu um styrk og laun í námsleyfi hennar. Ingibjörg stundaði MPA-nám í Bandaríkjunum sem Seðlabankinn greiddi fyrir en hún kom ekki aftur til starfa hjá bankanum þegar því námi var lokið. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að virði samningsins sé á annan tug milljóna króna og að um sé að ræða mun hærri námsstyrk en öðru starfsfólki bankans hafi boðist.
Seðlabankinn neitaði að láta blaðamanninn fá umræddan samning og hann skaut málinu til úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem, eftir fimm mánuði, komst að þeirri niðurstöðu að afhenda ætti gögnin. Seðlabankinn stefndi Ara í kjölfarið til að fá úrskurðinn hnekktan.
Blaðamannafélag Íslands fordæmdi í kjölfarið vinnubrögð Seðlabanka Íslands harðlega í yfirlýsingu. Þar segir að öllum megi vera „ljóst að þessi mál varða almenning í landinu og því fráleitt hjá stjórnendum Seðlabankans að neita að veita þessar upplýsingar. Af fréttum að dæma virðist hér vera um að ræða sérstakt mál innan bankans sem ekki styðst við neinar þekktar reglur eða fordæmi og því enn mikilvægara að upplýsa málið. Seðlabankinn er opinber stofnun og getur ekki hundsað að veita almenningi í landinu upplýsingar um starfsemi sína, ákvarðanir stjórnenda bankans og meðferð opinbers fjár.“
Seðlabankinn var nú í morgun, sem fyrr segir, dæmdur til að afhenda Ara upplýsingar um samninginn.