selabankinn_15367564864_o.jpg

Seðlabankinn og réttur almennings til að vita

Seðlabanki Íslands getur, umfram flestar aðrar stjórnsýslueiningar, beitt þagnarskylduákvæði sérlaga um sig til að veita fjölmiðlum ekki upplýsingar. Nýverið stefndi bankinn blaðamanni úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði sagt að ætti að fá það sem hann óskaði eftir. Fjölmörg önnur dæmi eru um að bankinn telji þagnarskyldu við starfsmenn og viðskiptamenn æðri rétti almennings til að vita hvernig hann starfar.

Seðlabanki Íslands stefndi í síðustu viku blaðamanninum Ara Brynjólfssyni, sem starfar hjá Fréttablaðinu, vegna fyrirspurnar sem hann lagði fyrir bankann í nóvember 2018. Fyrirspurnin snérist um að fá upplýsingar um samning sem bankinn hafði gert við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, sem starfaði þá sem framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits bankans, um styrk og laun í námsleyfi hennar. Ingibjörg stundaði MPA-nám í Bandaríkjunum sem Seðlabankinn greiddi fyrir en hún kom ekki aftur til starfa hjá bankanum þegar því námi var lokið. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að virði samningsins sé á annan tug milljóna króna og að um sé að ræða mun hærri námsstyrk en öðru starfsfólki bankans hafi boðist. 

Seðlabankinn neitaði að láta blaðamanninn fá umræddan samning og hann skaut málinu til úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem, eftir átta mánuði, komst að þeirri niðurstöðu að afhenda ætti gögnin. Úrskurðurinn hefur þó enn ekki verið birtur á vef nefndarinnar þar sem málið er enn í ágreiningi. Í honum felst að Seðlabankinn taldi að málefnaleg rök stæðu til þess að óska eftir því við úrskurðarnefndina að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og vísa  honum til dómstóla. 

Í grein sem Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, birti á vef Fréttablaðsins á föstudag segir að sá blaðamaður sem óskað hefur upplýsinga hafi „að mínu viti unnið verk sitt í þessum efnum vel og samviskusamlega og þótt formið krefjist þess að honum verði birt stefna, sem ýmsum kynni að finnast óþægilegt, þá er ekki verið að veitast að honum persónulega, og reynt er að milda honum leiðina eins og fram kemur í stefnunni og birtist m.a. í því að  Seðlabankinn gerir ekki kröfu um greiðslu málskostnaðar þó svo hann myndi vinna málið.“

„Leyndarhyggja og kúgunartilburðir"

Blaðamannafélag Íslands fordæmdi vinnubrögð Seðlabanka Íslands harðlega í yfirlýsingu sem birt var á fimmtudag. Þar segir að öllum megi vera „ljóst að þessi mál varða almenning í landinu og því fráleitt hjá stjórnendum Seðlabankans að neita að veita þessar upplýsingar. Af fréttum að dæma virðist hér vera um að ræða sérstakt mál innan bankans sem ekki styðst við neinar þekktar reglur eða fordæmi og því enn mikilvægara að upplýsa málið. Seðlabankinn er opinber stofnun og getur ekki hundsað að veita almenningi í landinu upplýsingar um starfsemi sína, ákvarðanir stjórnenda bankans og meðferð opinbers fjár.“

Þá fordæmir Blaðamannafélag Íslands sérstaklega það sem það kallar fráleita tilraun stjórnenda Seðlabankans „til að þagga niður málið með því að stefna umræddum blaðamanni Fréttablaðsins fyrir dóm með það fyrir augum að stöðva umfjöllun hans um Seðlabankann. Þessi vinnubrögð bankans bera keim af leyndarhyggju og kúgunartilburðum sem á ekki að viðgangast hjá opinberum stofnunum. Að mati Blaðamannafélags Íslands er ólíðandi að blaðamenn þurfi að standa í langvinnum, dýrum og tímafrekum málarekstri til að fá upplýsingar frá opinberum aðilum sem þeir eiga rétt á að fá samkvæmt upplýsingalögum.“ Undir tilkynninguna skrifar Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins. 

Segir við löggjafann að sakast

Seðlabanki Íslands er í þeirri stöðu að vera með ákvæði í sérlögum um starfsemi sína um þagnarskyldu þegar kemur m.a. að upplýsingum um fjárhagsleg málefni viðskiptamanna og starfsmanna. Því ákvæði hefur bankinn beitt óspart á undanförnum árum þegar fjölmiðlar hafa leitað eftir upplýsingum sem þeir telja að eigi skýrt erindi við almenning, og snerta starfsemi bankans eða atburði sem áttu sér stað við og í kjölfar efnahagshrunsins.

Stefán Jóhann segir í grein sinni á vef Fréttablaðsins að fjölmiðlafólk sé vel upplýst um lagaumhverfið og að það vísioft til lagaákvæða til rökstuðnings upplýsingabeiðnum sínum. Þetta fólk veit líka mætavel að lög geta meinað stofnunum að veita upplýsingar, t.d. um persónuleg eða viðskiptaleg málefni. Það er því ekki merki um neina mannvonsku eða kúgunartilburði, svo vitnað sé til orðalags ályktunar Blaðamannafélags Íslands, þótt fólk reyni að vanda sig og fara að lögum. Það vita flestir og skilja. Upplýsingalögum er ætlað að vera bæði blaðamönnum og stofnunum rammi og leiðbeining. Ef einhver er ósáttur við þau lög og þann farveg sem þau bjóða upp á eru hin réttu viðbrögð að ræða um mögulega breytingu á þeim.

Þagnarskylda um stór mál

Kjarninn hefur margoft verið í þeirri stöðu á undanförnum árum að leita upplýsinga hjá Seðlabankanum en ekki fengið aðgengi að þeim vegna þess að hann hefur borið fyrir sig þagnarskylduákvæðið. 

Árið 2016, í kjölfar þess að Kjarninn tók þátt í vinnu við opinberum upplýsinga um Íslendinga sem var að finna í Panamaskjölunum fór hann fram á að fá upplýsingar um skuldauppgjör þar sem þekktum íslenskum athafnamanni var heimilt að nota íslenskar skuldabréfaeignir aflandsfélags í eigu eiginkonu hans til að gera upp skuld íslenskra félaga sinna á fullu verði þrátt fyrir að höft væru við lýði og að slík leið byðist ekki almennt. Sérfræðingar sem rætt var við sögðu uppgjörið afar óvenjulegt. Seðlabankinn tók sér tvo mánuði til að svara fyrirspurninni og gerði það loks með því að vísa til þagnarskylduákvæðisins. 

Árið 2017 óskaði Kjarninn eftir því að fá afrit af samtali Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þar sem þeir ræddu um afgreiðslu neyðarláns til Kaupþings 6. október 2008. Seðlabankinn hafnaði beiðninni og vísaði í að þagnarskylda hvíldi á umræddum upplýsingum. 

Kjarn­inn ákvað í kjöl­farið að stefna Seðla­­­banka Íslands fyrir dóm­stóla til að reyna að fá ákvörðun Seðla­­­bank­ans hnekkt og rétt sinn til að nálg­­­ast ofan­­­greindar upp­­­lýs­ingar við­­­ur­­­kenndan á grund­velli upp­­­lýs­inga­laga.

Seðla­­banki Íslands ákvað að taka til varna í mál­inu og var það þing­­fest. Áður en kom að fyrirtöku þess gerð­ist það hins vegar að Morg­un­­blaðið birti afrit af sím­tal­inu í nóvember 2018. Davíð Odds­­­son er í dag rit­­­stjóri Morg­un­­­blaðs­ins.

Í fram­hald­inu náð­ist sam­komu­lag milli Kjarn­ans miðla, móð­­ur­­fé­lags Kjarn­ans, og Seðla­­banka Íslands um dómsátt í mál­inu. Í dómsátt­inni sagði að fyrir liggi „að end­­ur­­rit af sím­tali því sem stefn­andi krefst aðgangs að í máli þessu frá stefna birt­ist í Morg­un­­blað­inu eftir þing­­setn­ingu máls­ins þ.e. 18. nóv­­em­ber sl. Eru því ekki efni til þess lengur að synja stefn­anda um afhend­ingu þess. Stefndi mun því afhenda það til stefn­anda. Í þeirri athöfn felst engin við­­ur­­kenn­ing á rétt­­mæti mála­til­­bún­­aðar stefn­anda í mál­in­u.“

Fjárfestingarleiðin og ESÍ

Árum saman hefur Kjarninn leitað eftir upplýsingum um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem stóð til boða á árunum 2012 til 2015. Á meðal þeirra upplýsinga sem Kjarninn hefur farið fram á að fá eru um það hvaða einstaklingar og lögaðilar nýttu sér fjárfestingarleið bankans og hversu háar fjárhæðir hver og einn flutti til landsins eftir þeirri leið. Seðlabankinn hefur neitað að veita efnisleg svör og vísað í þagnarskylduákvæðið. 

Kjarninn kærði þá synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu í janúar síðastliðnum að fortakslaus þagnarskylda Seðlabanka Íslands gagnvart viðskiptamönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar „óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“

Kjarninn hefur einnig farið fram á að fá ýmsar upplýsingar um Eignarsafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) og dótturfélag þess Hildu. Þessi félög heyra ekki undir sömu lög og Seðlabanki Íslands og þurftu að fá sérstaka undanþágu frá upplýsingalögum. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, veitti félög­unum und­an­þágu frá upp­lýs­inga­lögum 27. nóv­em­ber 2015.  Sú undanþága rann hins vegar út 15. desember 2018. Seðlabankinn hafði þá ekki svarað fyrirspurnum Kjarnans um málefni ESÍ og Hildu mánuðum saman þrátt fyrir ótví­ræða laga­skyldu sam­kvæmt stjórnsýslulögum um að veita svör við fyr­ir­spurnum sem þess­um. Meg­in­regla stjórnsýslulaga er sú, að stjórn­sýslan skuli vera gagnsæ og fyr­ir­spurnum svarað fljótt og vel, er varða almanna­hags­muni.

Efn­is­leg svör hafa ekki borist við fyr­ir­spurn­um, meðal ann­ars um yfir­lit um kaup á lög­fræði­þjón­ustu hjá félög­un­um.

Í árs­reikn­ingum félags­ins hafa ekki komið fram ítar­legar upp­lýs­ingar um starf­semi félag­anna, og var beiðnin meðal ann­ars send af þeim ástæð­um, enda miklir almanna­hags­munir í húfi þar sem félögin hafa stundað eigna­um­sýslu bak við luktar dyr leynd­ar, árum sam­an, með mörg hund­ruð millj­arða króna eignir almenn­ings. 

Hefur starf­semin meðal ann­ars verið að miklu leyti utan sjóna almenn­ings, þar sem starf­semin hefur hangið saman við umfangs­mikla vinnu við upp­gjör á slitabúum föllnu bank­anna, Kaup­þings, Lands­bank­ans og Glitn­is, sem nú er lok­ið.

Þrátt fyrir að undanþágan hafi runnið út hefur efnislegum spurningum Kjarnans enn ekki verið svarað. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar