„Sjálfsagt væri þægilegra fyrir fákeppnismógúla landsins að þessi bankaráðsformaður segði sem minnst eða talaði kannski bara einu sinni á ári um ársreikning bankans. Enda hætt við að á hann sé hlustað eins og framkvæmdastjórinn bendir á.“
Þetta skrifar Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, í stöðufærslu á Facebook og vísar þar í ummæli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um viðbrögð Gylfa við nýju frumvarpi um breytingar á samkeppnislöggjöfinni.
Gylfi gagnrýndi frumvarp stjórnvalda harðlega í gær og sagði hann meðal annars að ráðherrarnir væru að láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast. „Þetta eru ekki ný baráttumál mógúlanna, hugmyndir í þessa veru hafa oft verið viðraðar áður en ekki fengið brautargengi vegna harðrar andstöðu. Nú sjá þeir hins vegar greinilega lag til að knýja þetta fram,“ sagði Gylfi meðal annars.
Hlustað á hann sem formann bankaráðs
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að viðbrögð Gylfa sæmi ekki stöðu hans. „Það er hryggilegt og ekki sæmandi formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands að lýsa afstöðu sinni með þessum hætti,“ segir Halldór.
Hann segir að Gylfi verði að gæta þess að vegna stöðu hans sé á hann hlustað og að orð hans hafi áhrif bæði hér á landi og erlendis.
„Það stendur upp á hann að skýra hvernig þetta samræmist stöðu hans og ég vænti þess að gengið verði eftir þeim skýringum,“ segir Halldór.
Hefur skilning á draumförum mógúla og martröðum neytenda
Í nýrri færslu á Facebook svarar Gylfi ummælum Halldórs í Fréttablaðinu í dag og segir að hann tali frekar í krafti þess að hafa verið á árum áður formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins og ráðherra samkeppnismála sem og háskólakennari fremur en formaður bankaráðs Seðlabankans.
„Hefur formaðurinn því ágæta þekkingu á samkeppnismálum, m.a. skilning á draumförum mógúla og martröðum neytenda. En formaðurinn bíður jafnspenntur eftir þessum skýringum sem von virðist á og framkvæmdastjórinn,“ skrifar Gylfi.
Sjálfsagt væri þægilegra fyrir fákeppnismógúla landsins að þessi bankaráðsformaður segði sem minnst eða talaði kannski...
Posted by Gylfi Magnússon on Tuesday, October 22, 2019