Hlutabréf Í Iceland Seafood International verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands 29. október næstkomandi eftir að Nasdaq Iceland, sem á og rekur kauphöllina, samþykkti umsókn félagsins um skráningu á þann markað. Áður var Iceland Seafood skráð á First North markaðinn.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Kauphöll Íslands í dag.
Stjórn Iceland Seafood International hf. óskaði eftir því að öll hlutabréf í félaginu verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaðinum í byrjun októbermánaðar.
Í útboðinu voru seldir 225 milljónir hluta í félaginu fyrir alls rúmlega 2,1 milljarð króna. Gengi bréfanna var því 9,5 krónur á hlut. Um var að ræða 9,63 prósent hlut í Icelandic Seafood.
Bjarni Ármannsson, sem eitt sinn var forstjóri Glitnis, er forstjóri Iceland Seafood. Félag í hans eigu, Sjávarsýn ehf., var líka stærsti eigandi Iceland Seafood fyrir nýlegt hlutafjárútboð, með 10,6 prósent eignarhlut. Félagið Nesfiskur ehf. átti 10,2 prósent hlut, FISK Seafood, sjávarútvegsarmur Kaupfélags Skagfirðinga átti sömuleiðis 10,2 prósent hlut og Jakob Valgeir ehf., í eigu útgerðarmannsins Jakobs Valgeirs Flosasonar, var fjórði stærsti eigandinn með 9,7 prósent hlut.
Þar á eftir kom félagið Solo Holding ehf. með 8,9 prósent hlut, en það félag er í eigu Sjávarsýnar, FISK Seafood, Jakobs Valgeirs, Nesfisks og Útgerðarfélags Reykjavíkur ehf., sem keypti þriðjung í því í nóvember í fyrra. Helsti eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur er Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, en félagið er langstærsti eigandi Brims með yfir helmingseignarhlut.
Í stjórn fyrirtækisins eru Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður WOW air og Aur app, og fyrrverandi forstjóri Nova, Magnús Bjarnason, stofnandi og framkvæmdastjóri MAR Advisors og fyrverandi forstjóri Icelandic Group, og áðurnefndur Jakob Valgeir.