Stefna fjölmiðla í eigu Torgs ehf., sem eru Fréttablaðið og tengdir miðlar, verður að halda fram „borgaralegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi. Frelsi verði gert hátt undir höfði og hag neytenda haldið á lofti. Stjórnvöldum á hverjum tíma verði veitt aðhald á öllum sviðum. Sama gildi um dómstóla. Áhersla verði lögð á mikilvægi umhverfisverndar, eflingu atvinnulífsins og samstarf Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi.“
Til viðbótar við þetta verður „kappkostað að fjölmiðlar TORGS verði áfram mikilvægur vettvangur skoðanaskipta og fréttamiðlunar á Íslandi.“
Þetta kemur fram í nýrri ritstjórnarstefnu fjölmiðla Torgs ehf. sem birt var í gærkvöldi á heimasíðu fjölmiðlanefndar.
Ritstjórnarstefnan er mjög frábrugðin þeirri stefnu sem áður var við lýði. Í henni sagði meðal annars að Fréttablaðið legði áherslu á „áreiðanlegan og vandaðan fréttaflutning“, að hafa „sjálft ekki skoðun á neinu máli“, að fjalla um „margar hliðar mála og draga fram ólíkar skoðanir og sjónarmið“ og að vera „.opinn og líflegur umræðuvettvangur fyrir lesendur og birta daglega umræðugreinar frá þeim“. Þá var lögð sérstök áhersla á að blaðið væri „hófstillt í framsetningu og útliti“.
Nýr eigandi innleiðir breytingar
Ritstjórnarstefnunni var breytt í kjölfar þess að Helgi Magnússon fjárfestir, sem í sumar keypti helminginn í útgáfufélagi Fréttablaðsins, bætti við sig hinum helmingnum í síðustu viku. Með þeim kaupum lýkur áralöngu eignarhaldi hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur á íslenskum fjölmiðlum, en þau höfðu verið aðaleigendur 365 miðla og fyrirrennara þeirrar fjölmiðlasamsteypu í um 16 ár.
Helgi og félög tengd honum gáfu stjórnmálaflokknum Viðreisn samtals 2,4 milljónir króna á árinu 2016. Sigurður Arngrímsson gaf 1,2 milljónir króna í eigin nafni og í gegnum tvö félög sín.
Samkvæmt skráningu hjá Fjölmiðlanefnd er Jón Þórisson nýr ábyrgðarmaður Fréttablaðsins. Jón skrifaði sinn fyrsta leiðara í blaðið daginn eftir að tilkynnt var um ráðningu hans, en þar var hluti af nýrri ritstjórnarstefnu birtur í fyrsta sinn. Hún hefur nú verið birt í heild sinni, líkt og áður sagði.
Risi á fjölmiðamarkaði sem hefur misst mikinn lestur
Fréttablaðið var lengi hluti af stærsta einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum. Hún var brotin upp seint á árinu 2017 þegar ljósvakamiðlar hennar, fjarskiptastarfsemi og fréttavefurinn Vísir voru seld til Vodafone á Íslandi, sem í dag heitir Sýn. Það félag tók við hinum keyptu eignum í desember 2017. Rekstur Fréttablaðsins og nýs fréttavefs, frettabladid.is, var í kjölfarið settur í felagið Torg ehf. sem er í eigu 365 miðla.
Fréttablaðið er fríblað sem er gefið út sex sinnum í viku og dreift í 80 þúsund eintökum. Auk blaðsins rekur Torg tímaritið Glamour og vefina frettabladid.is og markadurinn.is. Lestur blaðsins hefur dregist umtalsvert saman síðastliðin ár, en hann var um 64 prósent árið 2010. Í dag er hann 37,8 prósent. Hjá Íslendingum undir fimmtugu hefur hann á sama tímabili farið úr um 64 prósentum í 28,2 prósent.