TM tapaði 251 milljón króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar í dag.
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að tap TM á þriðja ársfjórðungi megi að öllu leyti rekja til fjárfestingastarfsemi. Hagnaður hafi orðið af vátryggingastarfsemi og samsett hlutfall fjórðungsins 94,9 prósent, en ávöxtun fjárfestingaeigna hafi hins vegar verið neikvæð um 1,1 prósent.
„Fjárfestingatekjur eru mjög sveiflukenndar, eins og sést glöggt á því að félagið skilaði sinni bestu fjárfestingaafkomu frá skráningu á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en neikvæðri ávöxtun á þeim þriðja,“ segir forstjórinn við tilefnið.
Hann segir enn fremur að með kaupunum á Lykli fjármögnun, sem tilkynnt var um þann 10. október síðastliðinn, skjóti félagið styrkari stoðum undir grunnrekstur samstæðunnar, áhættudreifing aukist og sveiflur í afkomu verði minni. Félagið áætlar að fyrirvörum um kaup á Lykli verði aflétt í lok ársins eða byrjun þess næsta og Lykill verði hluti af TM samstæðunni í framhaldinu.
Slæm staða fasteignasjóðs GAMMA hafði áhrif
Fram kom í fréttum í lok september síðastliðins að bókfært tap TM vegna slæmrar stöðu fasteignasjóðs á vegum GAMMA, Gamma Novus, hefði numið um 300 milljónum króna. Í tilkynningu félagsins til Kauphallar, var getið um tap af fjárfestingum, sem meðal annars mátti rekja til endurmats á eignum fasteignafélags á vegum GAMMA, sem er í eigu Kviku.
„Samkvæmt fyrirliggjandi tölum er ljóst að ávöxtun af verðbréfaeign félagsins verður talsvert verri en spá fyrir 3. ársfjórðung gerir ráð fyrir. Spáin gerir ráð fyrir að fjárfestingatekjur og aðrar tekjur muni nema 215 m.kr. Miðað við núverandi raunstöðu verða fjárfestingatekjur og aðrar tekjur neikvæðar á 3. ársfjórðungi á bilinu 225-275 m.kr. Lang stærsti hluti fráviksins skýrist af óvæntri og verulegri niðurfærslu á gengi fasteignasjóðs, en einnig er verri afkoma af hlutabréfum og hlutabréfasjóðum sem skýrist af lækkunum á markaði frá því að spáin var gefin út. Þar sem fjórðungurinn er ekki á enda þá er enn nokkur óvissa í framangreindum tölum,“ sagði í tilkynningu félagsins.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í lok september sagði forstjóri TM það vera „með ólíkindum“ hvernig stöðunni hjá fasteignasjóðnum hefði verið klúðrað.